Aðventuspjallið; Björg Björnsdóttir, nýr safnstjóri Minjasafns Austurlands
Í aðdraganda jóla ætlum við að fá að kynnast jólahefðum núverandi og verðandi stjórnendum safnanna þriggja í Safnahúsinu. Við heyrum nú frá Björgu Björnsdóttur, nýjum safnstjóra Minjasafns Austurlands en hún tekur við því starfi af Elsu Guðnýju Björgvinsdóttur í byrjun janúar.
Hvaða þrjú orð lýsa best þínum jólum?
Hlýja – mildi - nánd
Hver er þín fyrsta jólaminning?
Þetta eru margar minningar, kannski nær því að vera tilfinningar. Hlý jólaljós í alltumlykjandi myrkrinu, snjókorn sem vilja ekki falla til jarðar alveg strax, lokkandi ilmur úr eldhúsinu, jólabað með ilmkúlu, stífstraujuð jólarúmföt og endalaus bið eftir hinni helgu stund.
Hvaða jólagjöf sem þú hefur fengið er eftirminnilegust og af hverju?
Foreldrar okkar systkinanna gáfu okkur alltaf bók og konfekt í jólagjöf, stundum eitthvað fleira, en alltaf bók og konfekt. Þó ég léti mig oft dreyma um allskonar dót, þá held ég að bókin og konfektið hafi verið eftirminnilegustu gjafirnar hver jól.
Hvað finnst þér ómissandi að gera um jólin?
Ég hef varið hverri einustu jólanótt í að lesa jólabækurnar mínar og án þess gæti ég ekki verið.
Hvaða bók myndirðu vilja fá í jólagjöf þetta árið?
Þarf ég að velja? Sextíu kíló af sunnudögum, Jarðljós, Skálds saga, Eldri konur, Himintungl yfir heimsins ystu brún, Kul, Sporðdrekar, Bláleiðir…
Hver er þín jólaósk þetta árið?
Henni held ég fyrir mig og almættið.
Ómissandi uppskrift sem þú vilt deila – af hverju er hún ómissandi?
Ég gæti sagt ykkur frá uppskrift fjölskyldunnar að jólablöndunni þar sem jólaöl, malt og appelsín auk leynilegra innihaldsefna koma við sögu og ein gullfallega glerkanna frá sjötta áratugnum. En þess í stað ætla ég að gefa ykkur uppskriftina að blúndukökunum hennar mömmu – þær eru bestar! Einfaldar að gera, næfurþunnar og með fullt af stífþeyttum rjóma. Mér finnst þær ekkert síðri eftir að þær hafa verið frystar.
Blúndukökur (frá Björgu Jónasar)
100 gr. hafragrjón
75 gr. brætt smjörlíki
1 stórt egg
125 gr. sykur
1 msk. hveiti
1 tsk. lyftiduft
1 tsk. vanilludropar
Bræddu smjörlíki er hellt yfir hafragrjón og hrært lítillega í. Egg og sykur þeytt vel saman. Hveiti, lyftidufti og vanilludropum bætt út í. Loks er hafragrjónum, sem staðið hafa dágóða stund í smjörlíkinu, bætt út í deigið.
Mótið kringlóttar kökur á smjörpappír á bökunarplötu. Hægt er að miða við 1 tsk. af deigi fyrir hverja köku eða prófa sig áfram. Hafið gott bil á milli kakanna því þær renna út. Bakað við 200 gr. í 8 - 10 mínútur.
Þegar kökurnar hafa alveg kólnað, er vænu lagi af stífþeyttum rjóma smurt á köku og annarri steypt yfir. Kökurnar eru mjög góðar beint úr frysti.