Skip to main content

Landnámskonan áfram í Safnahúsinu

19. desember 2024

Ákveðið hefur verið að framlengja sýninguna Landnámskonan sem staðið hefur yfir í Minjasafni Austurlands síðan í vor. Á sýningunni eru til sýnis merkir austfirskir forngripir sem ekki hafa áður verið sýndir opinberlega.

Tvær ríkulega búnar landnámskonur skipa heiðurssess á sýningunni, annars vegar höfðingjakonan sem hvíldi í einu kumlinu sem grafið var upp í Firði á Seyðisfirði árið 2021 og hins vegar fjallkonan dularfulla sem fannst í hellisskúta á Vestdalsheiði upp af Seyðisfirði árið 2004. Bæði kumlin í Firði og líkamsleifar fjallkonunnar eru frá því um 950 og því ljóst að konurnar hafa verið uppi á sama tíma. Á sýningunni eru niðurstöður rannsókna á þessum fornleifafundum nýttar til að beina sjónum að konum á þessum tíma, lífi þeirra og störfum. 

Á sýningunni eru til sýnis gripir sem fundist hafa í uppgreftrinum í firði og nælur Fjallkonunnnar sem fundust 2004. Gripirnir eru allajafna varðveittir í Þjóðminjasafni Íslands og hafa ekki áður verið sýndir opinberlega. Þjóðminjasafnið veitti góðfúslegt leyfi fyrir útláni gripanna að uppfylltum ströngum skilyrðum um aðbúnað. Upphaflega stóð til að útlánatími gripanna yrði aðeins til nokkurra mánaða, en nú hefur Þjóðminjasafnið samþykkt framlengingu á láninu til 1. september 2025 sem er mikið gleðiefni enda hefur sýningin gengið ákaflega vel, verið vel sótt og vakið mikinn áhuga í nærsamfélaginu og víðar. 

Sýningin er samstarfsverkefni Minjasafns Austurlands, Antikva, Rannsóknarseturs HÍ á Austurlandi og Þjóðminjasafns Íslands. Sýningar höfundur er Rúna K. Tetzschner en auk hennar voru í sýningarnefnd þær Ragnheiður Traustadóttir, Rannveig Þórhallsdóttir og Elsa Guðný Björgvinsdóttir. Um hönnun og uppsetningu sá Hanna Christel Sigurkarlsdóttir og grafísk hönnun var í höndum Ingva Arnar Þorsteinssonar.