Skip to main content

Jólasamvera í Safnahúsinu

06. desember 2024

Hin árlega jólasamvera Safnahússins var haldin 4. desember síðastliðinn en eins og undanfarin ár tóku söfnin í húsinu þá höndum saman og buðu upp á margvíslega afþreyingu og notalega fjölskyldusamveru.

Á Minjasafninu gátu gestir sest niður í rólegheitum og föndrað úr appelsínum, kanil og grenigreinum en þeir sem voru til í meira fjör gátu leyst jólakrossgátu og leitað að jólasveinunum inn á sýningu safnsins. Á Bókasafninu var jólalegur upplestur, föndur og perlur en á Héraðsskjalasafninu gerði ónafngreindur jólasveinn sig heimakominn, gestum til mikillar gleði. Síðast en ekki síst gátu gestir dregið miða með nafni einhvers af hinum minna þekktu systkinum jólasveinanna og síðan teiknað þau með ímyndunaraflið að vopni. Myndir af þeim má nú skoða á leiðinni upp á Bókasafn - sem og jóla-örsýningu Minjasafnsins sem er í sýningarskáp á efstu hæð hússins.

Samveran var virkilega vel sótt og um 80-90 manns lögðu leið sína í húsið á meðan henni stóð. Takk fyrir komuna!