Minjasafnið fær styrki úr Safnasjóði

Logi Einarsson, menningarmálaráðherra afhenti styrki úr aðal og aukaúthlutun safnasjóðs við hátíðlega athöfn í húsnæði Þjóðminjasafns Íslands við Suðurgötu. Heildarúthlutun ársins 2024 úr safnasjóði nemur 234.795.000 krónum og alls hafa verið veittir 192 styrkir. Minjasafn Austurlands hlaut tvo styrki í aukaúthlutun 2024 en þar var alls 74 styrkjum úthlutað til 38 viðurkenndra safna. Þar af eru 53 styrkir til símenntunarverkefna og námskeiðahalds og 21 styrkur til stafrænna kynningarmála.
Styrkir Minjasafns Austurlands eru til símenntunar og námskeiðahalds; annars vegar til að standa fyrir námskeiði um björgun safngripa fyrir safnafólk á Austurlandi og hins vegar til að sækja Farskólann, fagráðstefnu safnafólks sem fram fer á Selfossi í haust. Öflugt fræðslustarf og námskeiðahald er grundvöllur faglegs starfs í söfnum og því eru þessir styrkir mjög mikilvægir fyrir Minjasafn Austurlands.
Mynd fengin af facebooksíðu Safnaráðs.