Skip to main content

Safnahús eign Fljótsdalshéraðs

07. febrúar 2014
Stjórn Minjasafnsins samþykkti á fundi í dag að eignarhluti Minjasafns Austurlands í Safnahúsinu á Egilsstöðum sé seldur til Fljótsdalshéraðs, samhliða því sem gerður var langtímasamningur um afnot og leigu Minjasafnsins á eignarhlutanum. Samkvæmt samningunum yfirtekur Fljótsdalshérað eignarhluta safnsins miðað við afhendingu um síðastliðin áramót. Samningurinn kveður á um skyldu Fljótsdalshéraðs til að vinna að viðhaldi og endurbótum á Safnahúsinu samkvæmt markmiðum viðhalds- og endurbótaáætlunar. Undir samninginn skrifaði Björn Ingimarsson fyrir hönd Fljótsdalshéraðs og Sigurjón Bjarnason formaður stjórnar Minjasafnsins. Vottar að undirritun voru Jón Þórðarsson sveitarstjóri Borgarfjarðar eystri og Gunnþórunn Ingólfsdóttir oddviti Fljótsdalshrepps.

Áður, eða þann 30. jan. s.l., hafði stjórn Héraðsskjalasafns Austfirðinga samþykkt breytingu eignarhalds hússins fyrir sitt leyti.

Þessi áfangi er fagnaðarefni enda hefur verið unnið að málinu um nokkurra ára skeið og sendu t.d. stjórn Minjasafns og Héraðsskjalasafns frá sér sameiginlega yfirlýsingu vorið 2010 þar sem hvatt var til þess að eignarhaldið á húsinu færðist yfir til Fljótsdalshéraðs, til að einfalda þann þátt í rekstri hússins, ekki síst til að greiða fyrir viðhaldi og framkvæmdum við húsið.

Framundan eru spennandi tímar þar sem tækifæri gefast til að byggja upp starfsemi í húsinu, efla varðveislu og miðlun menningarminja Austurlands og bjóða heimamönnum og ferðafólki upp á lifandi og fjölbreytta safnastarfsemi.

Síðustu fréttir

Öskupoka- og bolluvandasmiðja
12. febrúar 2024
Það var handagangur í öskjunni og líf í tuskunum í Safnahúsinu á dögunum þegar Minjasafnið, Bókasafn Héraðsbúa og Soroptimistaklúbbur Austurlands stóðu saman að öskupoka- og bolluvandasmiðju. Þar v...
Minjasafnið hlýtur styrki úr Safnasjóði.
26. janúar 2024
Á dögunum var úthlutað styrkjum úr aðalúthlutun Safnasjóðs við hátíðlega athöfn húsnæði Listasafns Íslands í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Minjasafn Austurland hlaut tveggja milljóna króna styrk í v...
Fjölbreytt afmælisár að baki.
10. janúar 2024
Nú þegar enn eitt árið hefur runnið sitt skeið er ekki úr vegi að staldra við og líta yfir farinn veg. Nýliðið ár var Minjasafni Austurlands gott, starfsemin var fjölbreytt og gestafjöldi með mesta...