Minjasafnið hlýtur styrk

Minjasafnið hlaut í gær styrk úr Samfélagssjóði Alcoa Fjarðaáls. Styrkurinn fer í þátttöku safnsins í norsk/íslenska verkefninu Fest Tråden.

Fest Tråden snýst um að rannsaka útsaum kvenna á Austurlandi og í Vesterålen í Noregi. Listakonan Ingrid Larsen dvaldi á Egilsstöðum í vor og tók viðtöl við fimm konur sem allar eiga það sameiginlegt að hafa stundað listina að sauma út. Fyrr í vetur tók Ingrid viðtöl við jafnmargar konur í Vesterålen. Ingrid mun rannsaka og bera saman útsaum kvenna á báðum stöðum og skoða hvaða þýðingu þetta tjáningarform hafði fyrir konurnar sem það stunduðu. Styrkurinn verður nýttur til að setja upp sýningu þar sem niðurstöðum Ingridar verður miðlað. 

Nágrannar okkar á Héraðsskjalasafni Austfirðinga hlutu hæsta styrkinn úr sjóðnum að þessu sinni. Styrkurinn verður nýttur til að koma öllu hljóð- og myndbandsefni safnsins yfir á stafrænt form. Við óskum þeim og öðrum styrkþegum til hamingju með styrkina.