Skip to main content

17. júní - Ný sýning og opið hús

16. júní 2016

Venju samkvæmt verður opið hús á Minjasafninu á þjóðhátíðardaginn og ókeypis aðgangur að sýningum.

Gestum gefst kostur á að skoða sýningarnar Hreindýrin á Austurlandi, Sjálfbær eining, 20 ár í Safnahúsi og "Brostu þá margir heyranlega" sem er sýning um Sigfús Sigfússon þjóðsagnasafnara frá Eyvindará.

Klukkan 16:00 bjóðum við síðan til opnunar nýrrar sýningar í Sláturhúsinu. Þar er um að ræða sýninguna Fjöllistamaður í fjallasal sem er tileinkuð Jóni A. Stefánssyni frá Möðrudal og er afrakstur samstarfs Minjasafnsins, Héraðsskjalasafns Austfirðinga og Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs.

Auk þess að vera bóndi í Möðrudal var Jón A. Stefánsson (1880-1971) mikill hagleiks- og listamaður, málaði málverk, skar út í tré, spilaði á orgel, samdi lög og söng. Frægastur er hann þó fyrir að hafa byggt Möðrudalskirkju og málað altaristöfluna sem í henni er en kirkjuna byggði hann til minningar um konu sína, Þórunni Oddsen. Á sýningunni verður leitast við að draga upp mynd af þessum merka alþýðulistamanni. Þar verða til sýnis málverk og útskornir munir eftir Jón auk þess sem hægt verður að hlusta á tónlist og annað hljóðefni og skoða ljósmyndir og skjöl tengd Jóni. Fjölmargir einstaklingar lánuðu listaverk á sýninguna og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir. 

Sýningin er styrkt af Uppbyggingarsjóði Austurlands og Fljótsdalshéraði. 

Hlökkum til að sjá ykkur - Gleðilega þjóðhátíð!