Hreindýrið komið heim
05. júlí 2016
Í dag var stór dagur á Minjasafninu þegar síðasta viðbótin við sýninguna Hreindýrin á Austurlandi kom í hús.
Þar er um að ræða uppstoppaðan hreindýrstarf sem felldur á Fljótsdalsheiði, nánar tiltekið rétt innan við Þrælaháls, 8. ágúst í fyrra. Tarfurinn sem er hinn glæsilegasti, var stoppaður upp af Reimari Ásgeirssyni, uppstoppara á Egilsstöðum.Sýningin Hreindýrin á Austurlandi fjallar um lífshætti og lífsbaráttu hreindýranna, hætturnar sem þau búa við af völdum náttúru og mannsins, um rannsóknir á þeim, um sögu hreindýraveiða og hvernig afurðir dýranna hafa verið nýttar til matar og í handverki og hönnun. Á sýningunni er meðal annars hægt að hlusta á frásagnir hreindýraveiðimanna, horfa á gamalt og nýtt kvikmyndaefni tengt hreindýrum, skoða margvíslega gripi og ljósmyndir og frá og með deginum í dag er einnig hægt að virða fyrir sér alvöru hreindýr í návígi.
Hér fyrir neðan má sjá myndir af því þegar tarfinum var komið fyrir á sínum stað í sýningarsal Minjasafnsins.