Samstarf við Óbyggðasetur

Sýningar Óbyggðaseturs Íslands voru formlega opnaðar við hátíðlega athöfn í gær.

Meðal þess sem þar getur að líta er fjöldi muna úr eigu Vigfúsar Sigurðssonar ljósmyndara sem Minjasafn Austurlands lánaði á sýninguna. Óbyggðasetur Íslands var opnað síðasta sumar á bænum Egilsstöðum í Fljótsdal. Þar er rekin menningartengd ferðaþjónusta þar sem gestum gefst kostur á að hverfa aftur til fortíðar og upplifa anda liðinnna daga í gegnum þjónustu og afþreyingu. Á setrinu er boðið upp á veitingar, gistingu, hesta- og gönguferðir og fjölbreyttar sýningar

 

 

Á sýningum setursins sem voru formlega opnaðar í gær er fjallað um líf í óbyggðum og líf í jaðri óbyggða. Í þeim hluta sýningarinnar sem fjallar um líf í jaðri óbyggðanna er útgangspunkturinn saga bæjarsins Egilsstaða í Fljótsdal og ættarinnar sem þar hefur búið í gegnum tíðina. Meðal umfjöllunarefna er Vigfús Sigurðsson (1880-1943), ljósmyndari sem ólst upp á Egilsstöðum. Vigfús var fjölhæfur lista- og hagleiksmaður. Hann teiknaði, málaði og spilaði á orgel frá unga aldri. Síðar lærði hann trésmíði og lagði stund á ljómyndun. Eftir hann liggur mikill fjöldi ljósmynda, bæði úr Fljótsdal og Reykjavík, sem varðveittar eru á Þjóðminjasafni Íslands.

Árið 1993 afhentu synir Vigfúsar, þeir Haukur og Sigurður, Minjasafni Austurlands safn persónulegra muna föður þeira. Hluti þessara muna var lánaður Óbyggðasetrinu þar sem þeir eru nú til sýnis í baðstofu staðarins. Meðal þessara gripa eru orgel Vigfúsar, skrifborð og ferðakoffort og auk smærri muna eins og málningarkassa, myndavéla, teikniáhalda og fleira. Síðast en ekki síst má á sýningunni skoða fálkafána sem Vigfús teiknaði og lét sauma en slíkir fánar voru óopinbert tákn Íslands í lok 19. aldar.

Afar vel hefur tekist til við sýningargerðina og heimsókn í Óbyggðasetrið er einstök upplifun sem enginn ætti að láta framhjá sér fara. 

(Mynd: Óbyggðasetur Íslands)