Skip to main content

Vilji til að reisa nýja burst við Safnahúsið

17. október 2016

Ný burst mun rísa við Safnahúsið  á næstu árum samkvæmt viljayfirlýsingu sem undirrituð var af  Illuga Gunnarssyni mennta- og menningarmálaráðherra og Birni Ingimarssyni bæjarstjóra Fljótsdalshéraðs í gær.

Með viljayfirlýsingunni er staðfestur vilji til áframhaldandi samstarfs um undirbúning og fjármögnun menningarhúss á Fljótsdalshéraði.

 

Samkvæmt yfirlýsingunni er annars vegar gert ráð fyrir uppbyggingu  í Sláturhúsinu sem verði gert að fjölnota menningarhúsi sem rúma skuli sviðslistir, tónlist, sýningar, vinnustofur og ungmennastarf auk gestaíbúðar fyrir listamenn. Hins vegar verði reist ný burst við Safnahúsið, líkt og ráð var fyrir gert í upprunalegum teikningum, sem verði til að bæta aðstöðu fyrir safnkost, sýningar og til fyrirlestrarhalds, auk aðstöðu fyrir fræði- og rannsóknarstörf.

Málið á rætur að rekja til ársins 1999 en þá ákvað þáverandi ríkisstjórn að fé skyldi lagt í menningarhús á Ísafirði, Sauðárkróki, Akureyri, Egilsstöðum og í Vestmannaeyjum. Uppbyggingu enn ólokið á Egilsstöðum og Sauðárkróki. Upphaflegar hugmyndir gerðu ráð fyrir að nýtt menningar- og stjórnsýsluhús myndi rísa í miðbæ Egilsstaða en horfið var frá þeim hugmyndum þar sem ljóst þótti að mikill kostnaður hefði fallið á sveitarfélagið. Þess í stað var ákveðið að fara svipaða leið og gert var á Ísafirði en þar voru þrjú hús tekin undir starfsemi menningarhúss. 

Safnahúsið hýsir Minjasafn Austurlands, Héraðsskjalasafn Austfirðinga og Bókasafn Héraðsbúa. Fyrsti áfangi hússins var tekin í notkun árið 1996 en upphaflegar teikningar gera ráð fyrir þremur burstum. "Viljayfirlýsingin er mikið fagnaðarefni enda mun ný burst gjörbylta allri starfsemi safnanna í Safnahúsinu" segir Elsa Guðný Björgvinsdóttir, safnstjóri Minjasafns Austurlands. "Húsið hefur í raun og veru aldrei verið klárað og það hefur hamlað starfseminni á margan hátt en nú horfum við til bjartari tíma". 

Mennta- og menningarmálaráðuneyti mun beita sér fyrir 288 m.kr. fjárframlagi úr ríkissjóði en sveitarfélagið fyrir 192 m.kr. fjárframlagi. Tillaga um fjárheimildir vegna verkefnisins verður lögð fram sem hluti af fjárlagafrumvarpi ársins 2018.