Festum þráðinn: Sýningaropnun
Á sýningunni eru sýnd útsaumuð verk tíu kvenna frá Austurlandi og Vesterålen í Noregi og er hún sett upp í tengslum við rannsókn norsku listakonunnar Ingrid Larssen á útsaumshefðum beggja svæða. Ingrid tók viðtöl við fimm konur frá hvoru svæði sem allar eiga það sameiginlegt að hafa stundað útsaum frá því þær voru börn. Viðtölin og ljósmyndir af verkum kvennanna gaf Ingrid síðan út í bók sem er samnefnd sýningunni og er til sölu í Minjasafninu.
Á opnuninni flutti tónlistarmaðurinn Öystein Magnús Gjerde norska og íslenska tónlist, Ingrid Larsen flutti ávarp og að lokum opnaði Signý Ormarsdóttir, verkefnastjóri menningarmála hjá Austurbrú, sýninguna.
Í ávarpi sínu sagði Ingrid meðal annars að með verkefninu vildi hún vekja athygli á hefbundnum útsaumi, unnum af þekkingu og færni með fjölbreyttri tækni og litavali. Hún minntist þess að hér áður fyrr hefði fjölbreytni og litagleði einkennt heimili. "Sófinn var fullur af púðum, borðin voru skreytt með nýstraujuðum dúkum og á veggnum hékk klukkustrengur. Allt fallega útsaumað." Í dag væru innréttingar hins vegar hvítar og minimalískar og enginn hefði lengur tíma til að strauja dúkinn hennar ömmu. Um leið og þeim fækkaði sem kynnu útsaumsaðferðirnar týndust einnig sögurnar á bak við verkin. Markmið verkefnisins væri því að varðveita aðferðirnar og sögurnar.
Sýningin var styrkt af Uppbygginarsjóði Austurlands og Styrktarsjóði Alcoa Fjarðaáls. Hún mun standa yfir fram að jólum og er opin á opnunartíma Minjasafnins, þriðjudaga til föstudaga frá klukkan 11:00 til 16:00. Hægt ert að semja um opnun utan þess tíma með því að hafa samband í síma 471-1412 eða á netfangið
Hér fyrir neðan má sjá myndir frá opnuninni. Á fyrstu myndinni eru skipuleggjendur sýningarinnar og íslensku þátttakendurnir í verkefninu. Frá vinstri: Elsa Guðný Björgvinsdóttir, safnstjóri; Ingrid Larssen listkona og verkefnisstjóri, Petra Björnsdóttir, Guðný Marinósdóttir, Jónína Fjóla Þórhallsdóttir, Kristbjörg Sigurðardóttir og Guðrún Sigurðardóttir (mynd: Gunnar Gunnarsson).