Bókavaka Safnahússins
Hin árlega bókavaka Safnahússins fór fram 1. desember.
Vakan er árlegur viðburður í safnahúsinu og er samstarfsverkefni safnanna þriggja þó starfskonur Bókasafnsins hafi veg og vanda af skipulagningunni.Á vökunni var austfirsk útgáfa í öndvegi eins og venjan er og kynntar til leiks bækur gefnar út í fjórðungnum og einnig bækur sem tengjast honum á einhvern hátt. Afar mikil gróska er í bókaútgáfu á Austurlandi um þessar mundir og því var fjallað um fjölda bóka á vökunni. Nokkrir höfundar lásu úr verkum sínum auk þess sem fulltrúar bókaútgáfunnar Bókstarfs og Félags ljóðaunnenda á Austurlandi sögðu frá þeim bókum sem gefnar hafa verið út á þeirra vegum í ár.
Á myndunum má sjá þá sem stigu á stokk á vökunni en þau voru: Agnes Helgadóttir sem kynnti bók föður síns, Helga Hallgrímssonar, Fljótsdælu; Sveinn Snorri Sveinsson sem las úr ljóðabók sinni Götusláttur Regndropanna; Hulda Sigurdís Þráinsdóttir sem las úr ljóðabók sinni Umrót; Jón Pálsson sem las úr bók sinni Valdamiklir menn; Íris Randversdóttir sem las úr bók sinni Músasögur, Sigíður Lára Sigurjónsdóttir sem kynnti bækur frá bókaútgáfunni Bókstaf og Magnús Stefánsson sem kynnti bækur sem Félag ljóðaunnenda á Austurlandi hefur gefið út á árinu. Auk þeirra las Dísa María Egilsdóttir upp úr bókinni Austfirskar tröllasögur sem Gunnarsstofnun gefur út.