Ný sýning: Minningar um torfhús
Á neðstu hæð Safnahússins hefur verið sett upp ný ljósmyndasýning sem ber yfirskriftina Minningar um torfhús.
Á sýningunni eru 25 ljósmyndir sem franski fornleifafræðingurinn Sandra Coullenot hefur tekið af gömlum byggingum vítt og breitt um Ísland.Ljósmyndirnar eru hluti af doktorsverkefni Söndru en í rannsóknum sínum skoðar hún m.a. hvort og hvernig torfhús hafa haft áhrif á íslenska sagnahefð og notar til þess bæði aðferðir þjóðfræði og fornleifafræði. "Með öðrum orðum velti ég fyrir mér tengingum á milli þeirar sem taka þátt í að skapa mennignararfinn, eins og sagnamanna, og þjóðlegs byggingararfs" segir Sandra. "Er hægt að greina einhverjar tilfinningalegar skuldbindingar eða aðgerðir hjá fólki sem það hefur gripið til í þeim tilgangi að tryggja arkitektúr torfhúsa ákveðinn sess innan íslenskrar menningarpólítíkur? Að hve miklu marki hafa aðgerðir einstaklinga eða hópa tila ð móta arfleifð torfhúsa haft áhrif á endurnýjun íslenskrar þjóðarímyndar?"
Sandra vonast til að sýningin veki upp minningar og hugrenningar sem sýningargestir tengja við torfhús. Sérstakur minningarkassi er á sýningunni og eru gestir hvattir til að skrifa hugrenningar sínar á miða sem hægt er að stinga í kassann.
Sýningin er á neðstu hæð Safnahússins fyrir framan Héraðsskjalasafnið og mun standa fram í miðjan febrúar. Hún er öllum opin og aðgangur ókeypis. Sýningin er sett upp í samstarfi við söfnin í Safnahúsinu og Gunnarsstofnun en Sandra dvelur um þessar mundir í gestaíbúðinni á Skriðuklaustri.