Skip to main content

Safnfræðsla á faraldsfæti

02. febrúar 2017

Á bóndadaginn pakkaði safnstjóri nokkrum vel völdum munum í kistu og lagði af stað norður fyrir Fljót.

Tilgangur ferðarinnar var að heimsækja elstu árgangana á leikskólanum Hádegishöfða og spjalla við þau um gamla tíma í tilefni af komu þorra. Í kistunni leyndust margvíslegar gersemar, svo sem askur, spónn, lítill strokkur, ull, horn, bein og sauðskinnsskór sem krakkarnir fengu að prófa. Rætt var um torfbæi, klæðnað fólks í gamla daga, leiki barna og matarhefðir en krakkarnir höfðu einmitt gætt sér á margvíslegum þjóðlegum mat í hádeginu í tilefni dagsins. Þá var einnig rætt um hefðir tengdar þorranum og um gömlu mánaðaheitin. Krakkarnir voru afar áhugasöm. Þau þekktu vel til gömlu leikfanganna og þótti gaman að prófa sauðskinnsskóna þó þau væru sammála um að þeir væru ekki góður búnaður til að hoppa í polla. Að lokum þökkuðu krakkarnir fyrir heimsókna með því að syngja nokkur vel valin lög. 

Við erum ávalt að leita leiða til að koma til móts við þá skóla sem ekki eiga þess kost að heimsækja safnið. Hafi kennarar hugmyndir eða tillögur, t.d. um muni sem þeir myndu vilja fá lánaða til að nota í kennslu er velkomið að hafa samband og kanna málið. Þá er í gangi vinna við gerð námsefnis fyrir safnið sem bæði verður hægt að nýta í tengslum við heimsóknir en einnig heima í skólastofunni. Verkefnið var styrkt af Safnasjóði og er stefnt á að efnið verði tilbúið fyirr næsta skólaár. 

20170120 Hadegishofdi4
20170120 Hadegishofdi7