Skip to main content

Safnfræðslu lokið þetta skólaárið

02. júní 2017

Í dag fékk Minjasafnið skemmtilega heimsókn frá leikskólanum Kærabæ á Fáskrúðsfirði.

Þar var á ferð útskriftarhópur skólans en þau voru í útskriftarferð um Fljótsdalshérað. Krakkarnir skoðuðu sýningar safnsins í fylgd safnvarðar og voru mjög áhugasöm um það sem bar fyrir augu. 

Heimsóknin markaði lok fræðslustarfs Minjasafnsins þetta skólaárið. Á skólaárinu 2016-2017 hafa 495 nemendur heimsótt safnið eða fengið fræðslu til sín. Þessum nemendum hafa fylgt 89 kennarar. Flestir nemendurnir sem fengu fræðslu voru á leikskólaaldri eða 269, grunnskólanemendurnir voru 115 og framhaldsskólanemendurnir 111. Tilgangur heimsóknanna var margvíslegur og í sumum tilfellum komu kennarar oft með nemendur sína í heimsókn á safnið. 

Safnfræðsla er stór hluti af starfsemi safnsins yfir vetrartímann og við erum sífellt að leita leiða til að þróa og bæta fræðslustarfið. Á síðasta ári hlaut Minjasafnið styrk úr Safnasjóði til að láta útbúa námsefni tengt safninu fyrir nemendur á grunnskólaaldri. Safnið fór í framhaldinu í samstarf við Unni Maríu Sólmundsdóttur hjá kennarinn.is og mun hún útbúa efnið fyrir safnið. Stefnt er að því að efnið verði tilbúið til notkunar fyrir næsta skólaár.