17. júní - Nýjar sýningar og opið hús
Venju samkvæmt verður opið hús á Minjasafninu á þjóðhátíðardaginn og ókeypis aðgangur að sýningum.
Gestum gefst kostur á að skoða fastasýningarnar Hreindýrin á Austurlandi og Sjálfbær eining auk þess sem sett hefur verið upp sýning tileinkuð skátastarfi fyrir framan Bókasafnið og í sýningarsalnum má skoða leikföngum frá upphafsárum Egilsstaðaþorps.
Klukkan 15:30 bjóðum við síðan til opnunar nýrrar sýningar í Sláturhúsinu. Þar er um að ræða sýninguna Þorpið á Ásnum sem sett hefur verið upp í tilefni af 70 ára afmæli þéttbýlis á Egilsstöðum en sýningin er samstarfsverkefni Minjasafnsins og Héraðsskjalasafns Austfirðinga. Sýningin er ein af þremur sumarsýningum Sláturhússins.
Á sýningunni eru til sýnis munir, ljósmyndir, skjöl, hljóð- og myndefni úr fórum safnanna tveggja sem allt tengist sögu Egilsstaða á einn eða annan hátt. Hér er ekki um að ræða tæmandi sögu Egilsstaða heldur er áhersla lögð á að fjalla um upphafið, um frumbyggjana og frumkvöðlana, sýna hvernig byggðin hefur þróast og taka dæmi um það fjölbreytta mannlíf sem hefur blómstrað á Ásnum alla tíð. Vonir standa til að sýningin veki upp minningar hjá eldri kynslóðum og gefi um leið yngri kynslóðum tækifæri til að fræðast um þá sem á undan þeim gengu um götur þorpsins á Ásnum.
Sýningin er styrkt af Fljótsdalshéraði.
Hlökkum til að sjá ykkur - Gleðilega þjóðhátíð!