Skip to main content

Lausir endar: Leyndardómar Álfkonudúksins frá Bustarfelli

22. ágúst 2017

Nú stendur yfir á Vopnafirði athyglisverð sýning sem byggir á sögninni um Álfkonudúkinn frá Bustarfelli. 

Álfkonudúkurinn frá Bustarfelli er þjóðargersemi frá 17. öld sem varðveitt er á Þjóðminjasafni Íslands. Sagan segir að húsfreyjan á Bustarfelli hafi á sínum tíma fengið hann í gjöf frá álfum. Síðar var dúknum breytt og hann notaður sem altarisklæði í Hofskirkju. Sýningin LAUSIR ENDAR speglar vinnu fornleifafræðingsins Birgit Lund og listakonunnar Ingrid Larssen sem dvöldu á Vopnafirði síðast liðið haust og urðu heillaðar af Álfkonudúknum og sögu hans.

Á sýningunni Lausir endar sem nú stendur yfir í Safnaðarheimilinu á Vopnafirði, eru sýnd útsaumuð verk eftir Ingrid sem unnin eru undir áhrifum frá dúknum. Þá er einnig til sýnis verk sem unnið var af börnum og konum á Vopnafirði að frumkvæði Ingridar. Við opnun sýningarinnar kynnti Birgit niðurstöður rannsókna sinna á dúknum en hún hefur rannsakað sögu hans og mögulegan uppruna. Birgit hefur meðal annars fundið tvö sambærileg altarisklæði sem varðveist hafa í Noregi annars vegar í Giske og hinsvegar í Kvernes. Dúkarnir eru sláandi líkir Álfkonudúknum, bæði hvað varðar myndmál og útsaumstækni. Niðurstöður sínar hefur Birgit gefið út í hefti sem er samnefnt sýningunni.

Birgit er lektor og fornleifafræðingur auk þess sem hún hefur unnið sem barna- og unglingakennari og hefur lagt áherslu á það í kennslu sinni að vekja áhuga barnanna á heimahögum og eigin menningu. Listakonan Ingrid Larssen hefur fengist við margvíslega listsköpun en frá árinu 2001 hefur textíll og útsaumur verið hennar aðalviðfangsefni þar sem hún hefur sótt sér innblástur í gamlar hefðir og aðferðir. Ingrid rekur eigin vinnustofu í Noregi og hefur tekið þátt í og sett upp fjölda sýninga, bæði í heimalandi sínu og víðar um heim. Meðal annars stóð hún fyrir verkefninu Festum þráðinn í samstarfi við Minjasafn Austurlands og Sortland Museum í Vesterålen en þar rannsakaði hún útsaum kvenna á Austurlandi og í Vesterålen og setti upp sýningar með verkum 5 kvenna frá hvorum stað í báðum söfnum.

Í tilefni af sýningaropnuninni og fyrirlestri Birgitar var Álfkonudúkurinn sjálfur til sýnis á Vopnafirði á opnuninni og á fyrstu dögum sýningarinnar í samstarfi við Þjóðminjasafnið. Var þetta í fyrsta skipti sem Álfkonudúkurinn kom á heimaslóðir síðan hann var settur á Þjóðminjasafnið til varðveislu. Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður var viðstödd opnunina og afhjúpaði dúkinn ásamt Berghildi Fanneyju Hauksdóttur, safnstjóra Minjasafnsins á Bustarfelli. Það er ekki á hverjum degi sem slíkir dýrðgripir úr fórum Þjóðminjasafnsins eru færðir til sýningar annars staðar á landinu enda krefst ferðalagið mikils undirbúnings. Helga Vollertsen, sérfræðingur hjá munasafni Þjóðminjasafnsins, fylgdi dúknum alla leið á áfangastað og sá til þess að hann væri meðhöndlaður á réttan hátt í öllu ferlinu. Dúkurinn var þrjá daga á sýningunni og var síðan aftur fluttur aftur til Reykjavíkur en áhugasamir geta skoðað hann á sýningunni Sjónarhorn sem nú stendur yfir í Safnahúsinu við Hverfisgötu

Sýningin LAUSIR ENDAR er afrakstur margra ára menningarsamstarfs Austurlands og Vesterålen í Norður Noregi. Auk þess koma Vopnafjarðarhreppur, Minjasafnið á Bustarfell, Þjóðminjasafn Íslands, Minjasafn Austurlands og Austurbrú að verkefninu.

Hér má sjá umfjöllun RÚV um Álfkonudúkinn og rannsókn Birgitar.

Inn á menningarsögulega gagnasafninu Sarpi er að finna fróðleik um dúkinn. 

Hér fyrir neðan má sjá myndir frá opnun sýningarinnar og fyrirlestri Birgit. 

20170819 Lausir Endar 4
20170819 Lausir Endar 1
20170819 Lausir Endar 5
20170819 Lausir Endar 7
20170819 Lausir Endar 2
20170819 Lausir Endar 3

 

Síðustu fréttir

Gripir fjallkonunnar aftur á heimaslóð
11. júní 2024
Sýningin Landnámskonan var formlega opnuð í Minjasafni Austurlands 9. júní síðstliðinn að viðstöddu fjölmenni. Þar má sjá forngripi sem aldrei hafa verið sýndir áður opinberlega, m.a. gripi sem til...
Landnámskonan - sumarsýning Minjasafnsins
06. júní 2024
Konur eru viðfangsefni sumarsýninga þriggja safna í Múlaþingi sem opnaðar verða núna í júní. Á sýningu Minjasafnsins verður sjónum beint að landnámskounnni og þar verða m.a. sýndir forngripir sem a...
Safnasóknin á Austurlandi
02. maí 2024
FÍSOS, félag íslenskra safna og safnafólks, stendur um þessar mundir fyrir fundaröð um landið undir yfirskriftinni Safnasóknin. Fyrsti fundur sóknarinnar fór fram á Egilsstöðum á dögunum en þangað ...