Þorpið á Ásnum í Safnahúsinu
Sýningin Þorpið á Ásnum hefur nú runnið sitt skeið í Sláturhúsinu og hefur verið sett upp í Safnahúsinu.
Sýningin var samstarfsverkefni Minjasafns Austurlands og Héraðsskjalasafns Austfirðinga og var sett upp í tilefni af því að 70 ár eru í ár liðin frá því að Egilsstaðahreppur var formlega stofnaður og þorp tók að myndast á Egilsstöðum. Sýningin var upphaflega sett upp í Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs en hefur nú verið tekin niður af veggjunum þar. Hluti hennar hefur verið settur upp í Safnahúsinu, annars vegar fyrir framan Héraðsskjalasafnið á fyrstu hæð hússins og hins vegar fyrir framan Bókasafnið á þriðju hæð.
3. bekkur Egilsstaðaskóla kom í heimsókn í Safnahúsið á dögunum til að skoða sýninguna en þau hafa verið að læra um Egilsstaði og myndun þorpsins. Þau skoðuðu myndir af þorpinu frá ýmsum tímum, veltu fyrir sér hvernig umhorfs var á Egilsstöðum áður en þorpið myndaðist og voru sammála um að miklar breytingar hefðu orðið á því á stuttum tíma. Þá skoðuðu þau einnig gagnvirkt kort sem útbúið var fyrir sýninguna sem sýnir hvar fyrstu húsin í þorpinu stóðu, ásamt myndum af húsunum og af fólkinu sem bjó þar fyrst.