Skip to main content

Nýtt námsefni fyrir grunnskóla

20. nóvember 2017

Minjasafn Austurlands hefur látið gera námsefni fyrir grunnskóla sem ætlað er að styðja við skólaheimsóknir á safnið. Fyrsti hluti efnisins er kominn á netið og fleiri eru væntanlegir.

Minjasafnið hlaut árið 2015 styrk úr Safnasjóði til að efla safnfræðslu sína en í því fólst meðal annars að láta vinna námsefni fyrir safnið. Unnur María Sólmundsdóttir, kennari og námsefnishöfundur sem á og rekur gagnabankann Kennarinn.is, vann efnið í samstarfi við Minjasafnið. Efnið er hugsað sem stuðningur við heimsóknir á safnið og verkefnin er bæði hægt að vinna á safninu sjálfu eða í skólastofunni. Einnig er lagt upp með að þeir kennarar sem ekki eiga þess kost að koma með nemendur sína á safnið geti nýtt efnið við sína kennslu þó þeir heimsæki ekki safnið.

Námsefnið er byggt upp þannig að einn námsefnispakki er eyrnamerktur hverjum bekk grunnskólans. Mismunandi umfjöllunarefni eru fyrir hvern árgang en öll tengjast þau á einhvern hátt sýningum og safnkosti Minjasafnsins eða sögu Austurlands. Pakkarnir eru sniðnir að þörfum hvers aldurshóps en þó þeir séu séu eyrnamerktir ákveðnum bekkjum er ekkert því til fyrirstöðu að kennarar noti efnið í öðrum árgöngum. Vonir standa til að með þessu muni nemendur alast upp sem virkir neytendur þess sem í boði er á söfnum og læra að þar er alltaf hægt að kynnast einhverju nýju.

Nú hefur fyrsti hluti námsefnisins litið dagsins ljós en þar er um að ræða námsefnispakka sem tengist sýningunni Hreindýrin á Austurlandi og er ætlaður fyrir 3. bekk. Námsefnispakki um jólahald í gamla daga, ætlaður 2. bekk, er síðan væntanlegur á næstu dögum. Fleiri pakkar eru í vinnslu og munu þeir allir verða aðgengilegir á sama stað þegar fram líða stundir. Nánari upplýsingar um hvernig nálgast má efnið er að finna hér.

Við á Minjasafninu vonum að efnið muni nýtast vel bæði kennurum og nemendum og minnum á að við tökum fagnandi á móti skólahópum. Hægt er að hafa samband í gegnum þetta netfang eða í síma 471-1412 til að bóka heimsóknir.