Skip to main content

Öskupokasmiðjur

13. febrúar 2018

Á bolludag og sprengidag var hluta Bókasafnsins breytt í öskupokasmiðju þar sem ungir sem aldnir gátu saumað sína eigin öskupoka.

Uppátækið var samstarfsverkefni Bókasafnsins og Minjasafnsins og fengu söfnin Soroptimistaklúbb Austurlands til liðs við sig en konur úr klúbbnum sá um að leiðbeina gestum ef á þurfti að halda. Gestirnir, sem voru á öllum aldri, munduðu nálarnar af mikilli fimi og saumuðu hvern öskupokann af öðrum. 

Sá siður að hengja öskupoka á fólk á líklega rætur að rekja aftur í kaþólskan sið. Elsta heimild um orðið „öskupoki“ er úr orðabók Jóns Ólafssonar úr Grunnuvík, líklega frá miðbiki 18. aldar en þar segir:

„Öskupoki, stundum öskuposi: Lítill poki fylltur ösku, sem piltar eða stúlkur hengja, sér til gamans á klæði annarra eða koma öðrum til að bera óvart á einhvern hátt á öskudag, það er að segja miðvikudag í föstuinngang. Sama á við um burð á steinum eða steinvölum. Þessi venja er án efa leifar úr kaþólskum sið.“

Að hengja öskupoka á fólk á þessum degi er alíslenskur siður. Í gamla daga var til siðs að konur hengdu poka með ösku á karla en karlar hengdu poka með smásteinum á konurnar. Sumir telja þennan sið á undanhaldi og að hann hafi vikið fyrir öðrum hefðum meðal barna. Hvað sem því líður voru gestir öskupokasmiðjunnar afar áhugasamir og því má öruggt telja að einhverjir eigi eftir að ganga grunlausir um bæinn með öskupoka á baki á öskudaginn. (Heimild: Vísindavefurinn).

Við þökkum öllum gestunum fyrir komuna og Soroptimistaklúbbi Austurlands fyrir fagmannlega leiðsögn. 

 

Skupokasmija 4
Skupokasmija 1
Skupokasmija 2
Skupokasmija 3
Skupokasmija 5