Skip to main content

Styrkur til framkvæmda í Kjarvalshvammi

19. mars 2018

Sumarhús Kjarvals í Kjarvalshvammi var meðal 252 verkefna sem hlutu styrki úr Húsafriðunarsjóði sem úthlutað var úr á dögunum. Styrkurinn verður nýttur til að ráðast í nauðsynlegt viðhald á húsinu. Sumarhús Jóhannesar Sveinssonar Kjarval, listmálara, stendur í hvammi einum í landi Ketilsstaða í Hjaltastaðaþinghá. Húsið reisti Kjarval árið 1948 og dvaldi þar til lengri eða skemmri tíma næstu 20 sumur. Húsið er merkilegt minnismerki um listamanninn og í hvamminum málaði Kjarval mörg af sínum frægustu málverkum

Minjasafn Austurlands er umsjónaraðili hvammsins og húsanna sem þar eru. Hvammurinn er vinsæll áningarstaður ferðamanna en þar er m.a. upplýsingaskilti með fróðleik um listamanninn og staðinn. Kominn er tími á nauðsynlegt viðhald á húsinu og verður styrkurinn sem er uppá 600 þúsund krónur, nýttur til að standa straum af kostnaði sem af því hlýst. Áður hafði Minjasafnið hlotið styrki frá Fljótsdalshéraði og úr Uppbyggingarsjóði í sama verkefni. 

Mörg áhugaverð verkefni á Austurlandi hlutu styrki að þessu sinni en nánar er hægt að lesa um úthlutunina hér.