Alþjóðlegi safnadagurinn 2018
Alþjóðlegi safnadagurinn er haldinn hátíðlegur í dag um allan heim. Í tilefni dagsins ýtum við úr vör nýjum lið hér á heimasíðunni sem ber heitið Gripur mánaðarins.
Yfirskrift Alþjóðlega safnadagsins að þessu sinni er: Ofurtengd söfn: ný nálgun, nýir gestir. Þar er verið að vísa til hugtaksins Ofurtengslamyndun (e. hyperconnectivity) sem varð til árið 2001 og nær yfir þær fjölmörgu samskiptaleiðir sem tæknin hefur fært okkur. Söfn hafa ekki farið varhluta af þessari þróun og svo er tækninni fyrir að þakka að söfn geta nú náð langt út fyrir sinn nærtækasta markhóp og fundið nýja gesti með því að nálgast safneign sína á annan hátt. Það hafa söfn til dæmis gert með því að koma safneigninni á stafrænt form, bæta margmiðlunarþáttum við sýningar eða með einföldum aðferðum á borð við myllumerki sem gerir gestum kleift að deila upplifun sinni á samfélagsmiðlum
Í tilefni dagsins ýtir Minjasafnið úr vör nýjum lið hér á síðunni sem ber nafnið Gripur mánaðarins. Einu sinni í mánuði munu starfskonur safnsins velja einn grip úr safnkostinu og fjalla um hann undir þessum lið. Markmiðið er að vekja athygli á þeim gríðarlega fjölda muna sem safnið varðveitir og því að hægt er að nálgast upplýsingar um þá flesta í gegnum menningarsögulega sagnasafnið Sarp. Gripur mánaðarins mun birtast sem frétt hér á forsíðu heimasíðunna og einnig er hægt að nálgast allar umfjallanirnar undir liðnum Fræðsla, efst á síðunni.
Gleðilegan safnadag og velkomin á Minjasafnið, bæði í raunheimum og netheimum.