Síðustu dagar safnfræðslu
Það hefur verið líf og fjör á Minjasafninu undanfarna daga en rúmlega 100 grunn- og leikskólanemar heimsóttu safnið í vikunni, sumir langt að komnir.
Margir skólar nýta síðustu daga skólaársins til að fara í lengri eða styttri ferðir og fræða nemendur um nærumhverfi sitt. Sumir nýta tækifærið og koma í heimsókn á Minjasafnið. Í gær fengum við 35 krakka úr 5.-7. bekk Eskifjarðarskóla og í dag komu 60 krakkar úr 1.-4. bekk sama skóla. Það er stærsti skólahópur sem við höfum tekið á móti hér á safninu. Krakkarnir skoðuðu sýningar safnsins undir leiðsögn safnvarða og fengu líka að spreyta sig á gömlu leikjum og þrautum. Allt saman afar fróðleiksfúsir og skemmtilegir gestir. Myndin sýnir yngri hópinn þar sem hann er að búa sig undir heimferð.
Í dag komu líka góðir og áhugasamir gestir frá Fáskrúðsfirði en þar var á ferð útskriftarárgangur leikskólans Kærabæjar sem var í óvissuferð um Fljótsdalshérað.
Skólaárið 2017-2018 hafa tæplega 650 nemendur úr leik- grunn- og framhaldsskólum á Austurlandi heimsótt Minjasafnið sem er töluverð fjölgun frá síðasta skólaári þegar tekið var á móti tæplega 500 nemendum.
Við þökkum öllum skólakrökkum sem hafa heimsótt okkur í vetur fyrir komuna og hlökkum til samstarfsins næsta vetur.