Skip to main content

Opnun sumarsýninga

20. júní 2018

Tvær nýjar sýningar voru opnaðar í Safnahúsinu á 17. júní. Annars vegar myndlistarsýningin Nr. 2. Umhverfing og hins vegar sýningin Austfirskt fullveldi - Sjálfbært fullveldi?

Sýningarnar tvær voru opnaðar að viðstöddu fjölmenni. Þær eru ólíkar en eiga það sameiginlegt að teygja anga sína víða. 

 

Nr. 2 Umhverfing

Sýningin Nr. 2 Umhverfing er samsýning 37 listamanna sem allir eiga það sameiginlegt að tengjast Fljótsdalshéraði á einn eða annan hátt. Sýningarstaðirnir eru þrír, Safnahúsið, Sláturhúsið og hjúkrunarheimilið Dyngja. Í tengslum við sýninguna hefur verið gefin út samnefnd bók með upplýsingum um listamennina og verk þeirra og er hún til sölu hjá Minjasafninu.

Sýningin er hluti af röð sýninga sem settar verða upp víða um land á næstu árum. Fyrsta sýningin var sett upp á Sauðárkróki í fyrra og bar hún titilinn Nr. 1 Umhverfing. Hugmyndin að baki verkefninu er að setja upp myndlistarsýningar í óhefðbundnum rýmum þar sem ekki er hefð fyrir nútíma myndlistarsýningum. 

Að sýningunni stendur félagsskapur fjögurra myndlistakvenna sem nefnist Akademía skynjunarinnar. Að henni standa þær Anna Eyjólfsdóttir, Ragnhildur Stefánsdóttir, Rúrí og Þórdís Alda Sigurðardóttir. Þær eru allar á meðal þeirra listamanna sem eiga verk á sýningunni en nöfn þeirra allra má sjá hér. Samstarfsaðilar akademíunnar í verkefninu eru Minjasafn Austurlands, Héraðsskjalasafn Austfirðinga, Bókasafn Héraðsbúa, Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs og Heilbrigðisstofnun Austurlands. Sýningin var styrkt af Uppbyggingarsjóði Austurlands, Fljótsdalshéraði og Listasjóði Dungal.

 

Austfirskt fullveldi - Sjálfbært fullveldi?

Sýningin Austfirskt fullveldi - Sjálfbært fullveldi er hluti af stærra verkefni sem níu mennta-, menningar- og rannsóknarstofnanir á Austurlandi tóku höndum saman um í tilefni af 100 ára afmæli fullveldis Íslands. Þar er ætlunin að skoða með nýstárlegum hætti hugtökin fullveldi og sjálfbærni og tengslin þar á milli. Sýningin sem opnuð var í Minjasafni Austurlands er ein af fjórum sambærilegum sýningum sem opnaðar voru á sama tíma á Austurlandi á þjóðhátíðardaginn. Hinar voru opnaðar í Tækniminjasafninu á Seyðisfirði, í Randulfssjóhúsi á Eskifirði og á Skriðuklaustri í Fljótdal. Sýningarnar fjalla um börn árin 1918 og 2018 og er líf þeirra, nánasta umhverfi og samfélag speglað við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Í tengslum við verkefnið hefur verið opnuð heimasíða þar sem finna á margvíslegan fróðleik. Þar mun einnig líta dagsins ljós fræðsluefni sem kennarar og aðrir geta notað en ætlunin er að bjóða skólahópum að koma á sýningarnar og vinna fræðsluefni þeim tengt. Verkefnið mun svo ná hápunkti á veglegri lokahátíð sem fram fer í Menntaskólanum á Egilsstöðum á fullveldisdaginn, 1. desember. Þar verða sýningarnar fjórar sameinaðar á einn stað, nemendur munu kynna verkefni sem tengjast fullveldinu og fleira. Auk þeirra stofnana sem þegar hafa verið nefndar koma Héraðsskjalasafn Austfirðinga, Skólaskrifstofa Austurlands, Safnastofnun Fjarðabyggðar  og Landgræðsla ríkisins einnig að því en það er leitt af Austurbrú. Sýningin var styrkt af Uppbyggingarsjóði Austurlands og Alcoa 

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir frá opnuninni. 

20180620 Sumarsyningar 2
20180620 Sumarsyningar 1
20180620 Sumarsyningar 4
20180620 Sumarsyningar 5
20180620 Sumarsyningar 3

Síðustu fréttir

Gripir fjallkonunnar aftur á heimaslóð
11. júní 2024
Sýningin Landnámskonan var formlega opnuð í Minjasafni Austurlands 9. júní síðstliðinn að viðstöddu fjölmenni. Þar má sjá forngripi sem aldrei hafa verið sýndir áður opinberlega, m.a. gripi sem til...
Landnámskonan - sumarsýning Minjasafnsins
06. júní 2024
Konur eru viðfangsefni sumarsýninga þriggja safna í Múlaþingi sem opnaðar verða núna í júní. Á sýningu Minjasafnsins verður sjónum beint að landnámskounnni og þar verða m.a. sýndir forngripir sem a...
Safnasóknin á Austurlandi
02. maí 2024
FÍSOS, félag íslenskra safna og safnafólks, stendur um þessar mundir fyrir fundaröð um landið undir yfirskriftinni Safnasóknin. Fyrsti fundur sóknarinnar fór fram á Egilsstöðum á dögunum en þangað ...