Skip to main content

Gripir frá Fljótsdalshéraði á sýningunni Kirkjur Íslands

18. desember 2018

Sýningin Kirkjur Íslands: Skrúði og áhöld, straumar og stefnur var opnuð í Þjóðminjasafni Íslands á dögunum. Á sýningunni eru meðal annars fimm gripir úr kirkjum á Fljótsdalshéraði. Sýningin er sett upp í tilefni af útgáfu 31. og síðasta bindisins í ritröðinn Kirkjur Íslands. Ný og einstæð yfirsýn hefur fengist á kirkjugripi í friðuðum kirkjum landsins í tengslum við útgáfu bókaflokksins en hann er gefinn út af Þjóðminjasafninu í samstarfi við Biskupsstofu og Minjastofnun Íslands.

Á heimasíðu Þjóðminjasafnsins segir um sýninguna: "Kirkjur á Íslandi voru öldum saman ígildi listasafna samtímans. Kirkjur létu vinna fyrir sig listaverk eða keyptu þau frá erlendum framleiðendum og einnig innlendum. Verslunarsaga landsins endurspeglast í varðveittum kirkjugripum. Aldur gripanna er breytilegur og þeir endurspegla smekk og fagurfræði hvers tíma. Fjölbreytni, listrænt og menningarsögulegt mikilvægi þeirra hefur orðið ljósara eftir því sem bókum í flokknum hefur fjölgað. Mikið er um vandaða heimagerða gripi sem veita innsýn í alþýðulist fyrri tíma. Á sýningunni [...] er fjallað um fjölbreytni og stíl kirkjugripa og hvernig þeir tengjast straumum og stefnum í alþjóðlegu samhengi listasögunnar."

Sýningin var sett upp í samstarfi við menningarminjasöfn og kirkjur um allt land. Gripir úr þremur kirkjum af Fljótsdalshéraði eru til sýnis á sýningunni, þ.e. vínkanna og oblátudós úr Kirkjubæjarkirkju í Hróarstungu, lítill kaleikur og stóla úr Hjaltastaðakirkju í Hjaltastaðaþinghá og ferðakaleikssett úr Áskirkju í Fellum.

Sýningin er liður í veglegri dagskrá 100 ára afmælis fullveldis Íslands og Evrópska menningararfsársins 2018 í Þjóðminjasafni Íslands og mun standa fram í október 2019.

Mynd: Ferðakaleikssett úr Áskirkju.