Skip to main content

"Fjallkonan" í Safnahúsinu

08. febrúar 2019

Fjallkonan á Vestdalsheiði var 20-30 ára þegar hún lést og hún var ekki fædd á Íslandi. Hún var ekki lögð í kuml og klæðnaður hennar virðist hefðbundinn miðað við búnað kvenna á víkingaöld. 

Þetta er meðal þess sem fram kom í fyrirlestri Rannveigar Þórhallsdóttur fornleifafræðings sem hún flutti í Safnahúsinu á dögunum. Yfirskrift erindisins var Fjallkonan.„Sér hún hátt og vítt um veg" – hinsta hvíla konu fá 10. öld á Vestdalsheiði. Erindið byggði Rannveig á MA-rannsókn sinni í fornleifafræði en þar rannsakaði hún gripi og líkamsleifar "Fjallkonunnar" svokölluðu, sem fundust við Afréttarskarð á Austurlandi í björgunaruppgreftri árið 2004. Fornleifarnar voru skoðaðar út frá síð-fræðilegum (e. post-disciplinary) aðferðum en þá er vísbendingum fylgt og farið yfir „landamæri“ fræðigreina til að svara því af hvaða uppruna „Fjallkonan“ var, hvaða félagslega hlutverki hún gegndi og hvort um kuml væri að ræða.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru að líklegt er að „Fjallkonan“ hafi ekki verið lögð í kuml þar sem engan manngerðan umbúnað var að finna á uppgraftarstað. Klæðnaður hennar virðist hefðbundinn miðað við búnað kvenna á víkingaöld. Mikill perlufjöldi sem fannst hjá henni gæti þó gefið hugleiðingum um völvu/seiðmann byr undir báða vængi. „Fjallkonan“ var 20–30 ára þegar hún lést og hún var ekki fædd á Íslandi. Gerðfræði skartgripa og ísótóparannsóknir sýna að hún virðist hafa verið uppi um miðja tíundu öld.

Rannveig Þórhallsdóttir er Minjasafni Austurlands að góðu kunn en hún starfaði sem safnstjóri þess á árunum 2001-2005. Hún lauk nýlega mastersprófi í fornleifafræði frá Háskóla Íslands undir leiðsögn Dr. Steinunnar Kristjánsdóttur sem einnig hefur gegnt starfi safnstjóra Minjasafns Austurlands, nánar tiltekið á árunum 1996-1997.

Rannveig hefur flutt erindið sitt víða undanfarið, meðal annars á Þjóðminjasafni Íslands. Hér má hlusta á upptöku frá fyrirlestrinum þar. 

Síðustu fréttir

Gripir fjallkonunnar aftur á heimaslóð
11. júní 2024
Sýningin Landnámskonan var formlega opnuð í Minjasafni Austurlands 9. júní síðstliðinn að viðstöddu fjölmenni. Þar má sjá forngripi sem aldrei hafa verið sýndir áður opinberlega, m.a. gripi sem til...
Landnámskonan - sumarsýning Minjasafnsins
06. júní 2024
Konur eru viðfangsefni sumarsýninga þriggja safna í Múlaþingi sem opnaðar verða núna í júní. Á sýningu Minjasafnsins verður sjónum beint að landnámskounnni og þar verða m.a. sýndir forngripir sem a...
Safnasóknin á Austurlandi
02. maí 2024
FÍSOS, félag íslenskra safna og safnafólks, stendur um þessar mundir fyrir fundaröð um landið undir yfirskriftinni Safnasóknin. Fyrsti fundur sóknarinnar fór fram á Egilsstöðum á dögunum en þangað ...