Skip to main content

Öskupokasmiðja

06. mars 2019

Það var heldur betur líf í tuskunum á árlegri öskupokasmiðju Minjasafnsins og Bókasafns Héraðsbúa sem fram fór á öskudaginn.

Öskupokasmiðjan var haldin í fyrsta skipti í fyrra og tókst svo vel að ákveðið halda hana aftur í ár. Sem fyrr var það Kristjana Björnsdóttir frá Borgarfirði eystra sem kenndi áhugasömum gestum réttu handbrögðin.  

Sá siður að hengja öskupoka á fólk á líklega rætur að rekja aftur í kaþólskan sið. Elsta heimild um orðið „öskupoki“ er úr orðabók Jóns Ólafssonar úr Grunnuvík, líklega frá miðbiki 18. aldar en þar segir:

„Öskupoki, stundum öskuposi: Lítill poki fylltur ösku, sem piltar eða stúlkur hengja, sér til gamans á klæði annarra eða koma öðrum til að bera óvart á einhvern hátt á öskudag, það er að segja miðvikudag í föstuinngang. Sama á við um burð á steinum eða steinvölum. Þessi venja er án efa leifar úr kaþólskum sið.“

Að hengja öskupoka á fólk á þessum degi er alíslenskur siður. Í gamla daga var til siðs að konur hengdu poka með ösku á karla en karlar hengdu poka með smásteinum á konurnar. Sumir telja þennan sið á undanhaldi og að hann hafi vikið fyrir öðrum hefðum meðal barna. Hvað sem því líður voru gestir öskupokasmiðjunnar afar áhugasamir og því má öruggt telja að einhverjir hafi gengið grunlausir um bæinn með öskupoka á baki á öskudaginn.

Stundum er því haldið fram að sá siður að hengja öskupoka á fólk á öskudaginn sé hverfandi. Það var ekki að sjá í Öskupokasmiðjunni þar sem ungir sem aldnir skemmtu sér konunglega við saumaskapinn.

(Heimild: Vísindavefurinn).