Handverk og hefðir: Málþing í Safnahúsinu
Handverk og hefðir er yfirskrift málþings sem Minjasafnið og Hallormsstaðaskóli standa að í sameiningu.
Málþingið fer fram í Safnahúsinu á Egilsstöðum laugardaginn 1. júní og hefst kl. 13:00. Þar verður fjallað um þjóðlegar handverkshefðir og aðferðir og þau tækifæri sem felast í arfleifð okkar á því sviði út frá ýmsum sjónarhornum. Við sama tækifæri gefst gestum kostur á að fá ráðgjöf um þjóðbúninga og ný sýning með peysufataslifsum úr safnkosti Minjasafnsins verður opnuð.
Dagskrá málþingsins er eftirfarandi:
- Elsa Guðný Björgvinsdóttir, safnstjóri Minjasafns Austurlands: Setning
- Bryndís Fiona Ford, skólastjóri Hallormsstaðaskóla: Hallormsstaðaskóli - Sjálfbærni, sköpun, textíll
- Margrét Valdimarsdóttir formaður Heimilisiðnaðarfélags Íslands: Hamingjan býr í handverkinu
- Kristín Vala Breiðfjörð formaður þjóðháttafélagsins Handraðans á Akureyri: Kynning á starfsemi þjóðháttafélagsins Handraðans.
- Elísabet Steinunn Jóhannsdóttir, ein af Spunasystrum: Að vinna úr eigin afurðum.
- Signý Ormarsdóttir, yfirverkefnastjóri hjá Austurbrú: Gróður fortíðar – gróði framtíðar.
Að málþingi loknu eða klukkan 15:00 verður boðið upp á viðburðinn Út úr skápnum – þjóðbúningana í brúk! Þar gefst eigendum þjóðbúninga og öðrum áhugasömum kostur á að koma með búningana sína og fá ráðgjöf sérfræðinga í búningasaumi og búningasilfri um hvaðeina sem viðkemur íslensku þjóðbúningunum, t.d. varðveislu, viðgerðir, breytingar, hvernig á að klæðast þeim og fleira. Við sama tækifæri verður opnuð sýning á peysufataslifsum úr safnkosti Minjasafns Austurlands.
Minjasafn Austurlands og Hallormsstaðaskóli standa fyrir viðburðinum í samstarfi við Heimilisiðnaðarfélag Íslands og með styrkjum frá Safnaráði, Uppbyggingarsjóði og Fjótsdalshéraði. Síðar á árinu hyggjast safnið og skólinn svo standa fyrir námskeiðum þar sem kennd verða þjóðlegar handverksaðferðir. Námskeiðin verða nánar auglýst síðar.
Allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis.