Opnun nýrrar sýningar í Safnahúsinu
Miðvikudaginn 30. október var opnun sýningarinnar "Eftirlýstir Íslendingar á 17. og 18. öld" í Safnahúsinu.
Sýningin samanstendur af 30 teikningum nemenda á teiknibraut við Myndlistaskólann í Reykjavík. Teikningarnar voru unnar upp úr lýsingum á eftirlýstu fólki sem birtust í Alþingisbókum Íslands (Acta comitiorum generalium Islandiæ) frá miðri 17. öld og undir lok 18. aldar en í Alþingisbókunum er að finna yfir tvöhundruð mannlýsingar af burtstroknum Íslendingum og öðru óskilafólki frá 17. og 18. öld. Á þessum tíma voru ekki aðrar leiðir færar til að lýsa eftir strokufólki og sakamönnum en að setja saman kjarnyrtar lýsingar á útliti þeirra sem síðan bárust manna á milli. Nú hafa nemar Myndlistarskólans í Reykjavík dregið upp myndir af þessu misindisfólki fyrri tíma og þannig opnað glugga að þessum samfélagskima fortíðarinnar. Viðburðurinn í Safnahúsinu er hluti af dagskrá Daga myrkurs á Austurlandi.
Verkefnið er samstarfsverkefni skólans og Daníels G. Daníelssonar, sagnfræðings, og er sprottið upp úr rannsóknum Daníels fyrir verkefnið ,,Fötlun fyrir tíma fötlunar." Daníel heiðraði okkur með nærveru sinni í tilefni dagsins og hélt mjög áhugavert erindi um verkefnið sjálft. Þar fór hann yfir rannsóknir sínar á efninu og dró fram í dagsljósið nokkra eftirlýsta Austfirðinga fyrri tíma. Góður rómur var gerður að fyrirlestrinum og skemmtilegar umræður spunnust í kjölfarið.
Við hvetjum fólk til þess að skoða þessar fallegu teikningar, en þær verða til sýnis í Safnahúsinu fram í desember og er aðgangur ókeypis.
Viðburðurinn er samstarfsverkefni Minjasafns Austurlands, Bókasafns Héraðsbúa og Héraðsskjalasafns Austfirðinga og er styrkt af Alcoa Fjarðaáli.