Fjölmenni á jólasamveru
Fjölmenni sótti Safnahúsið heim í dag þegar Minjasafnið og Bókasafn Héraðsbúa buðu til jólasamveru undir yfirskriftinni Líða fer að jólum.
Í boði var margvísleg jólaleg afþreying og áhersla lögð á að öll fjölskyldan gæti dundað sér saman í friði frá jólaös og stressi. Á bókasafninu svignuðu hillurnar undan jólabókunum og gestum var boðið upp á að föndra úr gömlum bókum og öðru endurnýtanlegu hráefni. Á Minjasafninu höfðu 13 litlir jólasveinar og fleiri skyldmenni þeirra falið sig víðsvegar um sýningarsalinn og skemmtu yngri gestir sér konunglega við að hafa upp á þeim. Á meðan sveif nostalgían yfir vötnum í sérstakri jólastofu sem starfskonur MInjasafnsins höfðu sett upp í anda 7. áratugarins.
Síðast en ekki síst gafst gestum kostur á að prófa að steypa tólgarkerti undir handleiðslu Guðrúnar Sigurðardóttur. Það vakti mikla lukku hjá öllum aldurshópum og margir gestir fór heim með tólgarkerti sem þeir höfðu sjálfir gert.
Kennsla Guðrúnar var hluti af verkefninu Handverk og hefðir sem Minjasafnið hefur staðið fyrir undanfarið ár en það hlaut styrki úr Safnajóði, Uppbyggingarsjóði og frá Fljótsdalshéraði.