Minjasafnið fær styrki úr Uppbyggingarsjóði
Minjasafn Austurland fékk úthlutað 1,3 milljónum til þriggja verkefna þegar úthlutað var úr Uppbyggingarsjóði Austurlands á dögunum.
Verkefnin sem um ræðir voru í fyrsta lagi áframhaldandi viðhaldsframkvæmdir á sumarhúsi Jóhannesar Kjarvals listmálara í Kjarvalshvammi en Minjasafnið er umsjónaraðili húsanna í hvamminum og hefur á undanförnum árum unnið að því að tryggja áframhaldandi varðveislu þeirra með viðamiklum viðhaldsverkefnum.
Í öðru lagi fékk safnið styrk til að setja upp sumarsýningu safnsins sem að þessu sinni verður með verkum franska sjónlistamannsins François Lelong en verk hans eru innblásin af hreindýrum og tengslum þeirra við náttúru og mannlíf á Austurlandi.
Síðast en ekki síst hlaut safnið styrk til að þróa fræðsluverkefni um Valþjófsstaðahurðina þar sem meðal annars verður unnið með myndmál hurðarinnar á skapandi hátt. Verkefnið verður unnið í tengslum við BRAS, menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi.
Við þökkum kærlega fyrir styrkina og hlökkum til að takast á við verkefnin sem framundan eru. Nánari upplýsingar um verkefnin sem hlutu styrki að þessu sinni má finna hér.