Skip to main content

Ný örsýning á efstu hæð Safnahússins

11. mars 2020

Eins og margir hafa eflaust tekið eftir hefur ný örsýning verið sett uppi í sýningarskáp á efstu hæð Safnahússins.

Þar gefur að líta handverk Málfríðar Jónasdóttur frá Kolmúla í Reyðarfirði en saga hennar er verulega áhugaverð og átakanleg í senn. Málfríður var fædd 27. september 1910 að Hreimsstöðum í Hjaltastaðaþinghá, fyrsta barn hjónanna Guðnýjar Guðmundsdóttur frá Heiðarseli í Tungu og Jónasar Benediktssonar frá Kolsstöðum á Völlum. Þegar Málfríður var á 10. aldursári fluttist fjölskyldan að Vattarnesi við Reyðarfjörð en sama ár veiktist hún illa af heilahimnubólgu og missti bæði sjón og heyrn eftir hálf árs þjáningafull veikindi. Heyrnina fékk hún þó að einhverju leyti aftur. Þrátt fyrir þetta lauk hún 14 ára gömul fullnaðarprófi eins og önnur börn, en foreldrar hennar aðstoðuðu hana við námið með því að lesa fyrir hana og uppfræða á alla lund. Málfríður dvaldi veturlangt í Reykjavík við nám í dönsku og blindraletri til undirbúnings frekara námi við kvennaskóla fyrir blinda í Danmörku. Styrkur hlaust til 2ja ára skólasetu ytra. Málfríður ræktaði talsvert það sem hún hafði yndi af - tónlist, ljóðlist, sögum og fræðum og eignaðist talsvert bókasafn fjölbreyttra rita á blindraletri. Ennfremur hlaut Málfríður mikla þjálfun í vefnaði ýmiskonar og voru afköst hennar og vandvirkni með ólíkindum. Hróður Málfríðar barst víða og var handavinna hennar seld og gefin vítt um land og til útlanda. Málfríður var, þótt ferill hennar gefi annað í skyn, fremur heilsuveil og lést hún aðeins þrítug að aldri, þann 20. mars 1941.

Í tilefni þessarar sýningar er gripur mánaðar á heimasíðu Minjasafnsins einmitt fallegt vettlingapar, prjónað af Málfríði, en gestum og gangandi gefst nú kostur á því að skoða þá, sem og fleiri glæsilega muni eftir Málfríði í fyrrnefndum sýningarskáp á efstu hæð. Við hvetjum alla til að kíkja við í Safnahúsið.

Málfríður Jónasdóttir. Mynd: Ljósmyndasafn Austurlands