Skip to main content

Íslensku safnaverðlaunin afhent

20. maí 2020

Íslensku safnaverðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn í Safnahúsinu við Hverfisgötu á alþjóðlegum degi safna, 18. maí. 

Verðlaunin eru veitt annað hvert ár fyrir framúrskarandi starfsemi á sviði safna. Að verðlaunaveitingunni standa Íslandsdeild Alþjóðaráðs safna (ICOM) og Félag íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS). Venju samkvæmt var óskað eftir ábendingum frá almenningi og síðan var það hlutverk sérstakrar valnefndar að fara yfir þær og ákveða hvaða verkefni skyldu hljóta tilnefningu. Metfjöldi ábendinga barst að þessu sinni sem er til marks um það blómlega starf sem fram fer á söfnum landsins. 

Minjasafn Austurlands, Tækniminjasafn Austurlands, Sjóminjasafn Austurlands og Gunnarsstofnun voru sameiginlega tilnefnd fyrir verkefnið "Austfirskt fullveldi - sjálfbært fullveldi?" sem söfnin stóðu að ásamt fleiri mennta- menningar- og rannsóknarstofnunum á Austurlandi í tilefni af 100 ára afmæli fullveldisins árið 2018. Auk þeirra var Náttúruminjasafn Íslands tilnefnt fyrir sýninguna Vatnið í náttúru Íslands; Listasafn Reykjavíkur fyrir verkefnið 2019- ár listar í almannarými; Borgarsögusafn Reykjavíkur fyrir sýninguna Fiskur & fólk - sjósókn í 150 ár og Þjóðminjasafn Íslands fyrir varðveislu- og rannsóknamiðstöðvar safnsins ásamt Handbók um varðveislu safnkosts og hlaut Þjóðminjasafnið verðlaunin að þessu sinni. 

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands afhenti verðlaunin og ávarpaði samkomuna og það gerði einnig Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. Bæði gerðu þau að umtalsefni þann fjársjóð sem íslensk safnaflóra er og hvöttu landsmenn til að heimsækja söfn á ferðum sínum innanlands í sumar. 

Við óskum Þjóðminjasafni Íslands innilega til hamingju með þessa verðskulduðu viðurkenningu. 

Síðustu fréttir

Gripir fjallkonunnar aftur á heimaslóð
11. júní 2024
Sýningin Landnámskonan var formlega opnuð í Minjasafni Austurlands 9. júní síðstliðinn að viðstöddu fjölmenni. Þar má sjá forngripi sem aldrei hafa verið sýndir áður opinberlega, m.a. gripi sem til...
Landnámskonan - sumarsýning Minjasafnsins
06. júní 2024
Konur eru viðfangsefni sumarsýninga þriggja safna í Múlaþingi sem opnaðar verða núna í júní. Á sýningu Minjasafnsins verður sjónum beint að landnámskounnni og þar verða m.a. sýndir forngripir sem a...
Safnasóknin á Austurlandi
02. maí 2024
FÍSOS, félag íslenskra safna og safnafólks, stendur um þessar mundir fyrir fundaröð um landið undir yfirskriftinni Safnasóknin. Fyrsti fundur sóknarinnar fór fram á Egilsstöðum á dögunum en þangað ...