Skip to main content

Íslensku safnaverðlaunin afhent

20. maí 2020

Íslensku safnaverðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn í Safnahúsinu við Hverfisgötu á alþjóðlegum degi safna, 18. maí. 

Verðlaunin eru veitt annað hvert ár fyrir framúrskarandi starfsemi á sviði safna. Að verðlaunaveitingunni standa Íslandsdeild Alþjóðaráðs safna (ICOM) og Félag íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS). Venju samkvæmt var óskað eftir ábendingum frá almenningi og síðan var það hlutverk sérstakrar valnefndar að fara yfir þær og ákveða hvaða verkefni skyldu hljóta tilnefningu. Metfjöldi ábendinga barst að þessu sinni sem er til marks um það blómlega starf sem fram fer á söfnum landsins. 

Minjasafn Austurlands, Tækniminjasafn Austurlands, Sjóminjasafn Austurlands og Gunnarsstofnun voru sameiginlega tilnefnd fyrir verkefnið "Austfirskt fullveldi - sjálfbært fullveldi?" sem söfnin stóðu að ásamt fleiri mennta- menningar- og rannsóknarstofnunum á Austurlandi í tilefni af 100 ára afmæli fullveldisins árið 2018. Auk þeirra var Náttúruminjasafn Íslands tilnefnt fyrir sýninguna Vatnið í náttúru Íslands; Listasafn Reykjavíkur fyrir verkefnið 2019- ár listar í almannarými; Borgarsögusafn Reykjavíkur fyrir sýninguna Fiskur & fólk - sjósókn í 150 ár og Þjóðminjasafn Íslands fyrir varðveislu- og rannsóknamiðstöðvar safnsins ásamt Handbók um varðveislu safnkosts og hlaut Þjóðminjasafnið verðlaunin að þessu sinni. 

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands afhenti verðlaunin og ávarpaði samkomuna og það gerði einnig Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. Bæði gerðu þau að umtalsefni þann fjársjóð sem íslensk safnaflóra er og hvöttu landsmenn til að heimsækja söfn á ferðum sínum innanlands í sumar. 

Við óskum Þjóðminjasafni Íslands innilega til hamingju með þessa verðskulduðu viðurkenningu. 

Síðustu fréttir

Öskupoka- og bolluvandasmiðja
12. febrúar 2024
Það var handagangur í öskjunni og líf í tuskunum í Safnahúsinu á dögunum þegar Minjasafnið, Bókasafn Héraðsbúa og Soroptimistaklúbbur Austurlands stóðu saman að öskupoka- og bolluvandasmiðju. Þar v...
Minjasafnið hlýtur styrki úr Safnasjóði.
26. janúar 2024
Á dögunum var úthlutað styrkjum úr aðalúthlutun Safnasjóðs við hátíðlega athöfn húsnæði Listasafns Íslands í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Minjasafn Austurland hlaut tveggja milljóna króna styrk í v...
Fjölbreytt afmælisár að baki.
10. janúar 2024
Nú þegar enn eitt árið hefur runnið sitt skeið er ekki úr vegi að staldra við og líta yfir farinn veg. Nýliðið ár var Minjasafni Austurlands gott, starfsemin var fjölbreytt og gestafjöldi með mesta...