Ráðstefna: Ný dagsetning og kallað eftir erindum

Vegamót, ráðstefna Minjasafns Austurlands og Félags þjóðfræðinga á Íslandi, fer fram dagana 18.-20. september næstkomandi. 

Upphaflega stóð til að ráðstefnan færi fram í maí síðastliðnum en henni var frestað vegna Covid-19. Enn er hægt að bæta við erindum á ráðstefnuna en frestur til að senda inn erindi rennur út 22. júní. 

Yfirskrift og þema ráðstefnunnar eru Vegamót sem vísar til þess að á ráðstefnunni mætist fólk úr ólíkum áttum; fólk frá ólíkum landshornum, fólk úr ýmsum fræðigreinum, nemar á ýmsum stigum í námi, áhuga- og fræðafólk. Þar mætast líka ólík viðfangsefni, hugmyndir, aðferðir og nálganir, fortíð og nútíð og hinir ýmsu krókar og kimar mannlífsins. Vegamót standa líka fyrir hreyfanleika, ferðalög og breytingar. Þegar komið er að vegamótum er venjan að staldra við, horfa í kringum sig, kanna ólíka möguleika og jafnvel líta yfir farinn veg. Svo þarf að ákveða hvort breyta eigi um stefnu eða halda áfram á sömu leið. Yfirskriftin vísar jafnframt til staðsetningar ráðstefnunnar á Egilsstöðum en þeir hafa í gegnum tíðina verið nefndir vegamót Austurlands.

Öllum er frjálst að senda inn erindi og eru áhugasamir eru beðnir að senda titil og stutt ágrip (200-300 orð) á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. fyrir 22. júní næstkomandi. Megin dagskrá ráðstefnunnar mun fara fram laugardaginn 19. júní og hún er öllum opin. 

 

Styrktar- og samstarfsaðilar ráðstefnunnar eru:
Fljótsdalshérað
Safnaráð / The Museum Council of Iceland
Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Austurlandi
Söguslóðir Austurlands - Félag áhugafólks um sögu Austurlands
Gunnarsstofnun - Skriðuklaustur
Óbyggðasetur Íslands / Wilderness Center