Sýningaropnanir á 17. júní

Minjasafn Austurlands kom að tveimur sýningum sem opnaðar voru 17. júní síðastliðinn

Annars vegar var þar um að ræða sýninguna Fleyg orð - Flugdrekabók sem opnuð var í Safnahúsinu en þar er á ferð sýning með verkum listamannsins Guy Stewart. Sýningin samanstendur af sjö flugdrekabókum sem hver og ein er tileinkuð fornu bókmenntaverki. Hún er óður til bókarinnar og bókmenningar, íhuguls lesturs og frelsis ímyndunaraflsins. Listamaðurinn beinir sjónum sínum að þeim áhrifum sem nýir miðlar eins og internetið hafa á hugsanagang okkar og hvernig við umgöngumst bækur í dag. Niðurstaðan er að bækur séu eins og flugdrekar. Á meðan internetið er alltumlykjandi er bókin hlutur sem við tökum okkur í hendur á ákveðnum tímum við ákveðnar aðstæður, rétt eins og flugdrekar sem aðeins er hægt að fljúga í vindi.

Hin sýningin sem opnuð var á þjóðhátíðardaginn og Minjasafnið átti þátt í var Austfirskt fullveldi - sjálfbært fullveldi? sem opnuð var á nýjan leik, að þessu sinni í Sláturhúsinu á Egilsstöðum. Sýningin var fyrst sett upp árið 2018 og var þá hluti af stóru samstarfsverkefni sem níu mennta-, menningar- og rannsóknarstofnanir á Austurlandi tóku höndum saman um í tilefni af 100 ára afmæli fullveldis Íslands. Á sýningunni eru aðstæður barna á árunum 1918 og 2018 bornar saman og speglaðar við heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Á dögunum hlutu Minjasafn Austurlands, Tækniminjasafnið á Seyðisfirði, Sjóminjasafnið á Eskifirði og Gunnarsstofnun tilnefningu til Íslensku safnaverðlaunanna fyrir sýninguna og í tilefni af tilnefningunni hefur sýningin nú verið sett upp að nýju.  

Safnaráð styrkti uppsetningu sýninganna.

Mynd: Frá opnun sýningarinnar Austfirskt fullveldi - sjálfbært fullveldi? í Sláturhúsinu.