Margvísleg afþreying í vetrarfríi
Vetrarfrí er nú framundan í flestum grunnskólum á Austurlandi. Aðgerðarstjórn almannavarna biðlar til íbúa að ferðast ekki út fyrir fjórðunginn í fríinu og því tilvalið að líta sér nær og skoða hvaða afþreying er í boði í nágrenninu.
Við minnum á að Minjasafnið er opið föstudaginn 23. október frá klukkan 11:00 til 16:00 og í tilefni vetrarfrís verður frítt inn fyrir fullorðna í fylgd með börnum þann dag. Hreindýrið Hreindís tekur sem fyrr vel á móti krökkum í krakkahorninu þar sem ýmislegt má finna sér til dundurs. Þá býður hún gestum einnig að fylgja krakkaleiðsögn Hreindísar um sýningar safnsins. Athygli er vakin á því að aðeins mega 20 fullorðnir vera inn á safninu í einu og við biðlum til fólks að fylgja sóttvarnarreglum og virða tveggja metra regluna.
Það er líka hægt að hreiðra um sig heima í stofu og heimsækja Minjasafnið á netinu því hér á heimasíðunni má finna ýmislegt sér til dundurs:
Í námsefni Minjasafnsins er að finna margvíslegan fróðleik og þrautir sem gaman er að spreyta sig á, t.d. um hreindýr og þjóðsögur Sigfúsar Sigfússonar.
Sýningin Kjarval - gripirnir úr bókinni stendur nú yfir á Sarpi. Þar má skoða gripi úr safnkosti Minjasafnsins sem birtust í bók Margrétar Tryggvadóttir, Kjarval - málarinn sem fór sínar eigin leiðir. Tilvalið er að skoða bókina samhliða sýningunni.
Undir liðnum "Fræðsla" á heimasíðunni er líka ýmislegt forvitnilegt, t.d. þetta kort þar sem hægt er að smella á mismunandi staði á Austurlandi og hlusta á þjóðsögur frá viðkomandi stað. Hvernig væri að skottast með símann upp að Fardagafossi og hlusta þar á söguna um skessuna sem býr undir fossinum?
Njótum þessa að vera með okkar nánustu, virðum tilmæli og förum varlega því við erum öll almannavarnir.