Skip to main content

Ljóstýra: Hátíðir í byrjun vetrar

29. október 2020

Byggðahátíðin Dagar myrkurs stendur nú yfir á Austurlandi. Af því tilefni býður Minjasafn Austurlands uppá daglega fróðleiksmola sem bera yfirskriftina Ljóstýrur. Fyrsta týran lýsir upp hátíðir í byrjun vetrar. 

Hátíðir í byrjun vetrar eru síður en svo nýjar af nálinni, þær eiga rætur sínar að rekja langt aftur í aldir.  Laugardaginn 23. október síðastliðinn var fyrsti vetrardagur, og hófst þá gormánuður samkvæmt gamla norræna tímatalinu en nafn mánaðarins vísar til sláturtíðarinnar. Þar sem sumar hefst á fimmtudegi enda sumarvikur á miðvikudegi. Tveir aukadagar voru að fyrsta vetrardegi og voru þeir nefndir vetrarnætur, þó það orð virðist oft hafa verið notað í víðari merkingu. Veturnætur voru tengdar hinu kvenlega, myrkri, kulda, dauða sláturdýranna, og nýju upphafi.

Vetrarnætur voru mikill samkomu- og veislutími hjá norrænum mönnum á miðöldum, enda var þá til nóg af mat og drykk eftir uppskeru og sláturtíð. Var það nánast nauðsyn að neyta þess nýmetis þá í sem ríkustum mæli vegna þeirra vandkvæða, sem þá voru á geymslu þess. Íslendingasögum er mikið talað um veturnáttablót og leika um það leyti og til að mynda er það í veturnáttaboði á Bergþórshvoli sem Hallgerði langbrók og Bergþóru sinnast fyrst. Þá er einnig mikið um sagnir af brúðkaupum um veturnáttaskeið. Um veturnætur voru einnig haldin dísablót, þar sem menn heiðruðu verndarvættir ættarinnar. Þær voru engar þokkadísir, heldur ægilegar kvenvættir, blóðþyrstar og þungvopnaðar

Vegna kristnitökunnar lögðust þessar hátíðir annaðhvort af eða færðust yfir á allraheilagramessu, sem er 1. nóvember. Upphaflega var hún haldin hátíðlega 1. maí hvers árs, en var færð fram í nóvember, fyrst og fremst til að koma í staðinn fyrir ýmsar mikilvægar heiðnar hátíðir sem haldnar voru á sama tíma.

Sú hátíð sem við þekkjum hvað best í dag á þessum árstíma er hrekkjavakan. Hún á rætur að rekja til heiðinnar hausthátíðar sem Írar og Bretar fögnuðu til forna, á meðan veturnætur voru í gangi á Norðurlöndum. Meira að segja graskersluktirnar eiga sínar norrænu rætur, því áður en Evrópumenn numu Ameríku og fundu graskerið, voru luktir skornar út úr rófum.

 

Heimildir:
Árni Björnsson, Saga daganna
Terry Gunnell, Hverjir eru hefðir og saga hrekkjavöku? 
Hrekkjavakan er rammíslenskur siður

 

 

 

Síðustu fréttir

Fjölbreyttar smiðjur í tengslum við BRAS
06. nóvember 2023
Eins og undanfarin ár tók Minjasafn Austurlands virkan þátt í BRAS, menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi. Verkefni safnsins voru sérstaklega viðamikil í ár en grunnskólum í Múlaþingi var ...
Dagar myrkurs í Safnahúsinu
02. nóvember 2023
Í tilefni af byggðahátíðinni Dögum myrkus Dögum myrkus buðu söfnin í Safnahúsinu til fjölskyldusamveru þar sem afþreying sem tengist árstímanum, myrkrinu og hrekkavökunni voru í hávegum. Lesnar vor...
Lokað 24. október
23. október 2023
Minjasafn Austurlands verður lokað mánudaginn 24. október vegna kvennaverkfalls enda vinna aðeins konur á safninu.  Safniðverður opnað aftur á venjubundnum tíma á miðvikudaginn kl. ...