Safnahúsið í roðagylltum bjarma
Þessa dagana slær roðagylltum bjarma á Safnahúsið. Markmiðið er að vekja athygli á kynbundnu ofbeldi.
Um er að ræða árlegt sextán daga alþjóðlegt átak gegn kynbundu ofbeldi sem hófst 25. nóvember og lýkur 10. desember, á degi Sameinuðu þjóðanna. Yfirskrift átaksins er "Orange the world" eða "Roðagyllum heiminn" og í tilefni af því eru hinar ýmsu byggingar lýstar upp með appelsínugulum lit sem táknar bjarta framtíð án ofbeldis. Hér á landi eru það Soroptimistar sem hafa veg og vanda að átakinu sem í ár beinist að áhrifum kóvíd-19 á kynbundið ofbeldi en í kjölfar faraldursins hefur ofbeldi gegn konum og stúlkum aukist mikið.
Fleiri hús í Múlaþingi eru lýst upp af þessu tilefni. Auk Safnahússins eru það bæjarskrifstofurnar á Seyðisfirði og Djúpavogi, Lindarbakki á Borgarfirði og kirkjurnar á Egilsstöðum og Seyðisfirði.
Nánar má lesa um átakið hér.