Skip to main content

Gleðilegt sumar!

23. apríl 2021

Í gær kom loksins dagurinn sem við höfum öll beðið spennt eftir! 

Sumardagurinn fyrsti er fyrsti dagur Hörpu, fyrsta mánaðar sumarmánaða samkvæmt gamla norræna tímatalinu og ber þetta nafn af þeim sökum. Hann er einnig kallaður yngismeyjadagur og er helgaður þeim. Sumardagurinn fyrsti var árið 1971 gerður að almennum frídegi og er einnig opinber fánadagur. Lengi vel hafa Íslendingar haldið mikið upp á sumardaginn fyrsta en hann markaði mikil tímamót í gamla bændasamfélaginu. Eins og Halldór Laxness orti: "Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga, sæta langa sumardaga".  Við bíðum öll spennt eftir þessum sætu, löngu sumardögum sem fylla okkur einhverjum krafti eftir langan dimman vetur. 

Um leið og við óskum ykkur öllum gleðilegs sumars viljum við vekja athygli á nýrri örsýningu í sýningarskáp á efstu hæð Safnahússins. Sú sýning nefnist "Sumar" og tekur við af sýningunni "Vetur" sem hefur verið til sýnis gestum Safnahússins síðan í janúar. Núverandi sýning sýnir ýmsa muni úr öllum áttum sem allir tengjast sumrinu á einhvern hátt. Við hvetjum alla að kíkja við og rifja jafnvel upp góðar sumarminningar liðinna ára. 

Einnig er ljósmyndasýning Önnu Birnu Jakobsdóttur, Eyðibýli á heimaslóðum, enn til sýnis á öllum hæðum Safnahússins. Sýningin sýnir myndir frá hinum ýmsu eyðibýlum á Austurlandi. 

Verið velkomin í Safnahúsið. Opið frá 9-19 alla virka daga.