Skip to main content

Fjölmenni við opnun sýningarinnar Kjarval á Austurlandi

17. september 2024

Fjölmenni var við opnun sýningarinnar Kjarval á Austurlandi sem Minjasafn Austurlands stendur nú fyrir í Sláturhúsinu á Egilsstöðum en hún var opnuð síðastliðinn laugardag. Á sýningunni er fjallað um líf listamannsins Jóhannesar Sveinssonar Kjarval og tengsl hans við Austurland. Þar skipa persónulegir hlutir listamannsins sem varðveittir eru á Minjasafninu stóran sess og leitast er við að varpa ljósi á persónuna Kjarval og tengja saman verk hans og umhverfið sem þau eru sprottin úr með fjölbreyttum hætti. 

Við opnuna sagði Elsa Guðný Björgvinsdóttir, safnstjóri Minjasafns Austurlands, frá því að lengi hafi staðið til að setja upp sýningu um Kjarval en á safninu er varðveitt stórt safn persónulegra gripa listamannsins sem afkomendur hans hafa afhent. Sumir gripirnir komu af vinnustofu hans í Reykjavík en aðrir höfðu áður verið til sýnis í Kjarvalsstofu á Borgarfirði á meðan hún var og hét. Mikil vinna hefur farið fram innan safnsins við að yfirfara, skrá og forverja gripina en m.a. fékkst styrkur úr Safnasjóði til að láta textílforvörð forverja hatta Kjarvals, fatnað og annan textíl. Hluta af hattasafninu má einmitt sjá á sýningunni. Upplýsingar og ljósmyndir af gripunum má sjá inni á vefnum Sarpur.is og hefur sú vinna nýst langt út fyrir safnið, 

Hanna Christel Sigurkarlsdóttir er sýningarstjóri sýningarinnar. Hún sagði frá því að hugmyndin að verkefninu hefði kviknað þegar hún leysti af sem sérfræðingur á sviði fræðslu og miðlunar hjá Minjasafni Austurlands. Þá hafði hún m.a. sagt skólahópum frá Kjarval og áttaði sig þá á því að upp væri komin kynslóð sem þekkti ekki til hans og því væri full ástæða til að fjalla um hann með veglegum hætti.   

Sýningin er fyrsti hluti af mun stærra samstarfsverkefni sem þrjár menningarstofnanir á Austurlandi standa að. Í tengslum við sýninguna og BRAS, menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi, mun Sláturhúsið bjóða ákveðnum árgöngum grunnskólanna á leiksýninguna Kjarval í samstarfi við Borgarleikhúsið. Þar er um að ræða fjölskylduleikrit sem fyrst var sett upp í Borgarleikhúsinu árið 2021 en í því er dregin upp mynd af Kjarval, drengnum, manninum og málaranum. Þá verður grunnskólunum líka boðið að nýta fræðsluefni sem sett hefur verið saman í tengslum við sýningarnar. Þriðji og síðasti hluti verkefnisins verður svo í höndum Skaftfells á Seyðisfirði en þar er ætlunin að setja upp sýningu með verkum Kjarvals sumarið 2025.

Sem fyrr segir var Hanna Christel sýningarstjóri sýningarinnar. Grafísk hönnun var í höndum Ingva Arnar Þorsteinssonar og Óttar Brjánn Eyþórsson sá um smíði. Marcellvs L sá um tökur og vídeóvinnslu og ljósmyndun var í höndun Juanjo Ivaldi Zaldívar. 

Sýningin er opin á opnunartíma Sláturhússins: Þriðjudaga til föstudaga, 11:00-16:00 og laugardaga, 13:00-16:00

Verkefnið er styrkt af Uppbyggingarsjóði Austurlands, Safnasjóði, Múlaþingi, Landsvirkjun, Alcoa, Atlantsolíu, MVA og List fyrir alla.

20240917 Kjarval Opnun 4
20240917 Kjarval Opnun
20240917 Kjarval Opnun 3
20240917 Kjarval Opnun 5
20240917 Kjarval Opnun 1
20240917 Kjarval Opnun 2
20240917 Kjarval Opnun 6
 

Síðustu fréttir

Ný sýning: Kjarval á Austurlandi
10. september 2024
Sýningin Kjarval á Austurlandi verður opnuð í Sláturhúsinu á Egilsstöðum næstkomandi laugardag. Sýningin er hluti af stærra verkefni sem þrjár menningarstofnanir á Austurlandi standa að. Sýningin ...
Fjörður, bærinn undir Bjólfi - Ragnheiður Traustadóttir segir frá rannsókninni í Firði
21. ágúst 2024
Undanfarin fimm sumur hefur staðið yfir umfangsmikil fornleifarannsókn í landi Fjarðar í Seyðisfirði. Rannsóknin hefur leitt í ljós gríðarlegan fjölda gripa og áhugaverðar niðurstöður. Hluti gripan...
Staða safnstjóra laus til umsóknar - umsóknarfrestur framlengdur
02. júlí 2024
Minjasafn Austurlands á Egilsstöðum auglýsir stöðu safnstjóra lausa til umsóknar. Við leitum að drífandi, sjálfstæðum, hugmyndaríkum og metnaðarfullum einstaklingi sem hefur brennandi áhuga á sögu ...