Dagar myrkurs í Safnahúsinu
Byggðahátíðin Dagar myrkurs fer nú fram á Austurlandi og af því tilefni buðu söfnin í Safnahúsinu til fjölskyldusamveru þar sem ýmis afþreying var í boði fyrir unga sem aldna.
Á bókasafninu var boðið upp á notalega sögustund, grímugerð og litamyndir, auk Break out Edu myrkraþrautar sem flestir stóðu sveittir yfir og leituðu vísbendinga hér og þar um bókasafnið. Á Héraðsskjalasafninu var hægt að njóta myndasýningar á myndum úr Ljósmyndasafni Austurlands og líkt og í fyrra bauð Minjasafnið upp á rófuútskurð að gömlum sið en einnig ratleik um sýningarsal safnsins og nýja örsýningu tengda hjátrú.
Sá siður að skera út í rófur og gera úr þeim lugtir á rætur sínar að rekja til Írlands á 16. öld. Þær voru settar fyrir utan húsdyrnar til að hræða illar verur á brott en bjóða gesti velkomna. Seinna barst siðurinn til Bandaríkjanna og þá var farið að skera út í grasker í stað rófna. Margar listilega útskornar rófur litu dagsins ljós í Safnahúsinu og ekki skemmdi fyrir að geta maulað innvolsið úr þeim jafnóðum.
Sá siður að gera sér glaðan dag í byrjun vetrar er síður en svo nýr af nálinni en slíkar hátíðir eiga rætur sínar að rekja langt aftur í aldir. Hér má lesa umfjöllun Minjasafnsins um hátíðir í byrjun vetrar frá árinu 2020 og ef lesendur vilja spreyta sig á rófnaútskurði þá er hér að finna gott kennslumyndband frá Árbæjarsafni þar sem réttu handtökin eru sýnd.
Við hvetjum Austfirðinga að kynna sér veglega dagskrá Daga myrkurs hér.