Skip to main content

Plógurinn og pizzan - hugleiðing í tilefni alþjóðlega safnadagsins

17. maí 2021

„Og ef ég ætla að stoppa þá geri ég pizzu“ sagði 7 ára dóttir mín stolt þar sem hún var að lýsa afrekum sínum í skíðabrekkunum fyrir 95 ára vini sínum. „Pizzu?“ Spurði sá aldraði undrandi. „Já“ sagði ég afsakandi „það var einu sinni kallað að fara í plóg en börn í daga vita ekki hvað það er þannig að núna er þeim kennt sjá fyrir sér pizzusneið“. „Er ekki bara hægt að kenna börnunum hvað plógur er?“ spurði sá aldraði undrandi. Ég viðurkenni að ég hafði ekki svar á reiðum höndum.

Í þessu litla raunverulega samtali er kynslóðabilið augljóst. Þar sést líka hvernig orðfæri okkar tekur breytingum í takt við samfélagsbreytingar og síðast en ekki síst hvernig við verðum að þekkja fortíðina til að skilja margt í nútímanum. Það má líklega færa rök fyrir því að það sé fyrir utan verksvið skíðakennara að útskýra myndlíkingar og kenna börnum um tilgang landbúnaðartækja sem eru ekki lengur hluti af daglegu lífi þorra þjóðarinnar. Þar koma söfnin hins vegar sterk inn. Á menningarminjasöfnum er hægt að komast í snertingu við fortíðina og skilja þannig nútíðina betur. Þar er hægt að skoða plóginn og fræðast um tilgang hans. Íslensk söfn geyma þannig dýrmætan fjársjóð. Þau eru gluggi okkar að fortíðinni. Hinumegin við glerið er nútíminn, umhverfið sem söfnin starfa í. Og þar eru líka neytendur safnanna, kröfuharðir krakkar sem hafa alist upp í tæknivæddum heimi. Þeim þurfa söfnin að mæta. Með nútíma tækni opnast óendanlegir möguleikar þegar kemur að miðlun menningararfsins til komandi kynslóða. Að sama skapi opnar tæknin leiðir til að ná betur til hópa sem ekki eru reglulegir gestir á söfnum t.d. þeirra sem búa langt í burtu frá þeim. Tæknina getum við nýtt til að bæta aðgengi, breyta upplifunum og styrkja tengsl og færa þannig plóginn nær nútímabörnum.

Elsa Guðný Björgvinsdóttir, safnstjóri Minjasafns Austurlands. 

---

Hugleiðingin birtist fyrst á Facebooksíðu alþjóðlega safnadagsins á Íslandi. Þar má lesa hugleiðingar frá fleira safnafólki. 

Safnadagur 2021

Safnadagur 2021

Síðustu fréttir

Gripir fjallkonunnar aftur á heimaslóð
11. júní 2024
Sýningin Landnámskonan var formlega opnuð í Minjasafni Austurlands 9. júní síðstliðinn að viðstöddu fjölmenni. Þar má sjá forngripi sem aldrei hafa verið sýndir áður opinberlega, m.a. gripi sem til...
Landnámskonan - sumarsýning Minjasafnsins
06. júní 2024
Konur eru viðfangsefni sumarsýninga þriggja safna í Múlaþingi sem opnaðar verða núna í júní. Á sýningu Minjasafnsins verður sjónum beint að landnámskounnni og þar verða m.a. sýndir forngripir sem a...
Safnasóknin á Austurlandi
02. maí 2024
FÍSOS, félag íslenskra safna og safnafólks, stendur um þessar mundir fyrir fundaröð um landið undir yfirskriftinni Safnasóknin. Fyrsti fundur sóknarinnar fór fram á Egilsstöðum á dögunum en þangað ...