Skip to main content

Safnaráð í heimsókn

10. september 2021

Minjasafn Austurlands fékk góða gesti í heimsókn á dögunum þegar Safnaráð leit við á ferð sinni um Austurland. 

Safnaráð er stjórnsýslunefnd sem starfar eftir safnalögum og hefur það meginhlutverk að hafa eftirlit með safnastarfsemi í landinu, vinna að stefnumörkun um safnastarf, fjalla um viðurkenningar safna og veita umsagnir um styrkumsóknir í safnasjóð. Ráðið var á þriggja daga ferð um Austurland og heimsótti öll viðurkenndu söfnin í fjórðungnum sem eru auk Minjasafns Austurlands, Tækniminjasafn Austurlands á Seyðisfirði, Sjóminjasafn Austurlands á Eskifirði og Minjasafnið á Bustarfelli. Með í för voru einnig fulltrúar frá Þjóðminjasafni Íslands og Listasafni Íslands. 

Í heimsókninni í Minjasafnið skoðaði ráðið húsakynni safnsins og fékk upplýsingar um starfsemina og það sem framundan er. Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings, hitti einnig hópinn og ræddi m.a. annars um nýtilkoma sameiningu Múlaþings og fyrirhugaðar framkvæmdir við Safnahúsið. Þá leit ráðið einnig við á Héraðsskjalasafni Austfirðinga og Bókasafni Héraðsbúa. Heimsóknin var afar ánægjuleg og þar gafst dýrmætt tækifæri fyrir starfsfólk safnsins til að ræða safnastarf, áskoranir og tækifæri í víðu samhengi.