Hausta tekur, BRAS-ið byrjar

Menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi, BRAS, stendur nú sem hæst. Sem fyrr tekur Minjasafn Austurlands virkan þátt í hátíðinni og býður bæði upp á opna viðburði fyrir almenning og sérstaka viðburði fyrir grunnskóla. 

Þetta er í fjórða sinn sem hátíðin er haldin en markmið hennar er að gefa börnum á Austurlandi tækifæri til að skapa og upplifa listir í víðasta samhengi. Í ár var náttúra og umhverfisvernd þema hátíðarinnar. Af því tilefni bauð Minjasafn Austurlands upp á tvær smiðjur fyrir börn og fjölskyldur þeirra þar sem opin efniviður og skapandi hugsun var í fyrirrúmi. Í smiðjunni var horft til fortíðar og leitað fanga í gullabúum barna fyrri tíma og börnum boðið upp á leika og skapa með sjálfbærum, umhverfisvænum og endurnýttum efnivið. Fyrri smiðjan fór fram í garðinum við Lindarbakka á Borgarfirði eystra. Þar gafst gestum einnig kostur á að skoða húsið og gæða sér á ilmandi lummum sem steikar voru í eldhúsinu. 

Seinni smiðjan fór fram við Safnahúsið á Egilsstöðum. Sýningar safnsins voru einnig opnar og börnum boðið að skoða og leika sér í krakkahorni safnsins. Í báðum smiðjum naut starfsfólk safnsins aðstoðar Bryndísar Snjólfsdóttur við skipulagningu og framkvæmd og kunnum við henni bestu þakkir fyrir ómetanlega aðstoð. 

Framundan eru síðan smiðjur fyrir grunnskólana í Múlaþingi en í ár mun Minjasafn Austurlands bjóða skólunum upp á tvær smiðjur. Annars vegar er þar um að ræða smiðju fyrir yngsta stig sem nefnist Þjóðasagna StopMotion en þar munu nemendur vinna með þjóðsögur og búa til stopmotion hreyfimynd eftir þjóðsögu að eigin vali. Hin smiðjan verður verður í boði fyrir mið stig og þar munu nemendur fá fræðslu um Valþjófsstaðahurðina og síðan vinna skapandi verkefni undir handleiðslu listakvennanna Ránar Flygenring og Elínar Elísabetar Einarsdóttur. Við erum afar stolt af því að geta boðið upp krökkunum upp á að vinna með þessum flottu listakonum en það getum við með stuðningi Safnasjóðs, Uppbyggingarsjóðs Austurlands, Landsvirkjunar og Múlaþings. 

Þær stöllur munu einnig bjóða upp á opnar fjölskyldusmiðjur í boði Múlaþings í öllum byggðakjörnum sveitarfélagsins. 

 

20210924 Bras 7
20210924 Bras 1
20210924 Bras 2
20210924 Bras 3
20210924 Bras 4
20210924 Bras 5