Skip to main content

Fræðsla á fullu

08. október 2021

Það má með sanni segja að það hafi verið nóg um að vera í safnfræðslu Minjasafns Austurlands undanfarna daga en tæplega 160 börn fengu einhvers konar fræðslu frá Minjasafni Austurlands í vikunni þegar allt er talið.

Safnfræðsluverkefni vikunnar voru fjölbreytt og skemmtileg. Fyrst ber þar að nefna stórt verkefni sem Minjasafn Austurlands stóð fyrir í tengslum við BRAS, menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi. Safnið bauð öllum skólum í Múlaþingi upp á smiðjur fyrir miðstig þar sem sjálf Valþjófsstaðahurðin var megin umfjöllunarefnið. Krakkarnir fengu fræðslu um þennan merka forngrip og tengsl hans við Austurland og unnu svo skapandi verkefni undir handleiðslu Ránar Flygenring og Elínar Elísabetar Einarsdóttur. Þær stöllur heimsóttu skólana, rýndu í myndmál hurðarinnar með krökkunum og unnu með þeim fjölbreytt verkefni. Tæplega hundrað börn tóku þátt í þessum smiðjum í skólunum sínum og þökkum við þeim og starfsfólk skólanna kærlega fyrir góðar móttökur og gott samstarf.  

Á safninu sjálfu var líka líf og fjör í vikunni. Í tengslum við BRAS býður safnið einnig upp á smiðju fyrir yngsta stig grunnskólanna þar sem fjallað er um þjóðsagnasafn Sigfúsar Sigfússonar frá Eyvindará. Krakkarnir velja sér eina þjóðsögu og gera svo hreyfimynd (stop motion) eftir henni undir handleiðslu starfsfólks safnsins. 3.-5. bekkur Brúarársskóla heimsótti safnið í vikunni til að taka þátt í slíkri smiðju og notaði einnig tækifærið til að skoða sýningar minjasafnsins og kynna sér starfsemi hinna safnanna í húsinu. 

Þá fengum við hóp frá leikskólanum Tjarnarskógi en safnið hefur um árabil átt í góðu samstarfi við skólann. Samstarfið snýst um að einn árgangur kemur í fjórar heimsóknir á safnið yfir skólaárið og fær að kynnast lífi fólks í gamla daga með fjölbreyttum hætti. Í ár eru það börn fædd árið 2018 sem taka þátt í verkefninu.

Síðast en ekki síst kom 3. bekkur í Egilsstaðaskóla í heimsókn til að kynna sér hreindýrasýninguna en þau hafa undanfarið verið að læra um hreindýr. Krakkarnir fengu leiðsögn um sýninguna og geystust síðan um hana í svokölluðu safnarallýi sem gengur út á að leita uppi ákveðna gripi og skrifa heiti þeirra niður á blað. Að endingu horfðu þau á myndina Bjartur og hreindýrið eftir Láru Garðarsdóttur en hún byggir á kafla úr bókinni Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness. 

 

Síðustu fréttir

Gripir fjallkonunnar aftur á heimaslóð
11. júní 2024
Sýningin Landnámskonan var formlega opnuð í Minjasafni Austurlands 9. júní síðstliðinn að viðstöddu fjölmenni. Þar má sjá forngripi sem aldrei hafa verið sýndir áður opinberlega, m.a. gripi sem til...
Landnámskonan - sumarsýning Minjasafnsins
06. júní 2024
Konur eru viðfangsefni sumarsýninga þriggja safna í Múlaþingi sem opnaðar verða núna í júní. Á sýningu Minjasafnsins verður sjónum beint að landnámskounnni og þar verða m.a. sýndir forngripir sem a...
Safnasóknin á Austurlandi
02. maí 2024
FÍSOS, félag íslenskra safna og safnafólks, stendur um þessar mundir fyrir fundaröð um landið undir yfirskriftinni Safnasóknin. Fyrsti fundur sóknarinnar fór fram á Egilsstöðum á dögunum en þangað ...