Skip to main content

Grunnskólanemar rýna í Valþjófsstaðahurðina

13. október 2021

Undanfarna daga hafa nemendur á miðstigi í grunnskólum Múlaþings rýnt í myndmál Valþjófsstaðahurðarinnar, velt fyrir sér uppruna hennar og skapað sín eigin listaverk innblásin af myndefninu í smiðjum sem Minjasafn Austurlands bauð upp á í tengslum við BRAS.

Markmið verkefnisins var fyrst og fremst að fræða nemendur um Valþjófsstaðahurðina og tengsl hennar við Austurland en hurðin er einn af lykilgripunum á grunnsýningu Þjóðminjasafns Íslands, Þjóð verður til. "Okkur langaði að vekja athygli nemenda á þessum merkilega grip og gera það í gegnum einhvers konar sköpun" segir Elsa Guðný Björgvinsdóttir, safnstjóri Minjasafn Austurlands. "Við tókum saman fræðsluefni sem kennarar gátu nýtt sér til að kynna hurðina og sögu hennar fyrir nemendum og síðan vorum við svo ljónheppin að fá teiknarana Rán Flygenring og Elínu Elísabetu Einarsdóttur í lið með okkur til að leiðbeina í sjálfum smiðjunum. Þær tóku tæpa viku í að heimsækja skólana með upprúllaða mynd af hurðinni í fullri stærð undir hendinni".

Valþjófsstaðahurðin, sem er frá því um 1200, var áður fyrir kirkjudyrum á Valþjófsstað í Fljótsdal. Hurðin er fagurlega útskorin og segir útskurðurinn sögu riddara sem bjargar ljóni úr klóm dreka. Í verkefninu var farin sú leið að nálgast myndmálið eins og myndasögu og þær Rán og Elín segja að nemendur hafi bæði verið jákvæðir og áhugasamir um sögu og myndmál hurðarinnar: "Við hófum hverja smiðju á því að kynna okkur sjálfar og segja frá því í hverju það felst að vera teiknari. Við báðum síðan krakkana um að kynna sig stuttlega og sögðum þeim svo frá Valþjófsstaðahurðinni og hvers vegna hún er einn merkasti dýrgripur á Íslandi. Eftir að hafa rætt sögu hennar í grófum dráttum fórum við yfir myndasöguna á hurðinni í þaula. Elín Elísabet leiddi krakkana skref fyrir skref í gegnum söguna og Rán teiknaði jafnóðum upp á töflu einfalda mynd af atburðarrásinni. Að þessu loknu fengu nemendur teiknimyndasöguvinnublað til að teikna sína eigin myndasögu innblásna af persónum og atburðarrás hurðarinnar. Í lokin kynntu krakkarnir sögurnar sínar fyrir okkur og samnemendum sínum. Okkur fannst almennt krakkarnir afskaplega jákvæðir og áhugasamir um sögu Valþjófsstaðahurðarinnar og efni myndasögunnar. Þau voru almennt frekar fljót og ófeimin að taka til við að teikna og hugmyndaflugið lét ekki standa á sér."

Smiðjan var eins og fyrr segir hluti af BRAS, menningarhátið barna og ungmenna á Austurlandi en markmið hennar er að bjóða börnum og ungmennum í fjórðungnum uppá tækifæri til að skapa og njóta listar. Minjasafn Austurlands hefur tekið virkan þátt í BRAS frá upphafi. "Við erum mjög stolt af því að geta boðið skólunum upp á smiðju sem þessa og með svona færum leiðbeinendum og fyrirmyndum. Við erum ekki bara að fræða krakkana um Valþjófsstaðahurðina og fá þau til að skapa heldur erum við einnig að sá hjá þeim fræjum um að það sé hægt að skapa sér starfsvettvang sem teiknari eins og þær Rán og Elín hafa gert. Það er dýrmætt. Síðan höfum heyrt af umræðu meðal nemenda um að þau vilji heimsækja Þjóðminjasafnið næst þegar þau fara til Reykjavíkur til að skoða hurðina með eigin augum og þá held ég að markmiðinu sé náð" segir Elsa Guðný. 

Verkefnið unnið í samstarfi við sveitarfélagið Múlaþing og var styrkt af Uppbyggingasjóði Austurlands, Safnasjóði og Landsvirkjun. 

202110120 1
202110120 1
202110120 2
202110120 3
202110120 4
202110120 5
20211012 1