Framkvæmdafréttir úr Kjarvalshvammi

Framkvæmdum er nú lokið í Kjarvalshvammi þetta haustið og búið að ganga frá sumarhúsi Kjarvals fyrir veturinn. Framkvæmdir hefjast svo að nýju næsta sumar. 

Minjasafn Austurlands hefur umsjón með húsunum í Kjarvalshvammi og hefur á undanförnum árum staðið fyrir viðhaldi á sumarhúsi Kjarvals. Verkefnið hófst árið 2018 og hefur verið unnið smátt og smátt eftir því sem fjármagn leyfir en verkefnið hefur alfarið verið fjármagnað með styrkjum. 

Í fyrsta áfanga var aðaláhersla lögð á að styrkja undirstöður hússins sem voru mjög illa farnar. Á árinu 2019 var ráðist í annan áfanga verkefnisins en þá var lögð áhersla á ytra byrði hússins. Unnið var að viðgerð á langhliðum og stafni að baka til. Skipt var um fótstykki og hluta af stoðum vegna fúa. Þá var jafnframt gengið frá tryggum festingum við steypta undirstöðubita. Á árinu 2020 var haldið áfram með ytra byrði hússins og áhersla var lögð á viðgerð á þaki og þakköntum. Meðal annars var skipt um þakplötur og þær færðar til upprunalegs horfs. Í fjórða áfanga verkefnisins sem fram fór sumarið og haustið 2021 var framstafn hússins endurbyggður og styrktur. Útiklæðning var fúavarin og máluð. Báðir gluggar voru teknir úr húsinu og verða þeir endursmíðaðir í upprunalegri mynd. Þá er verður útihurð einnig endurgerð í upprunalegri mynd en gömlu lamirnar og hurðarskráin verða notaðar áfram. Sem fyrr var þess gætt við allar framkvæmdir að raska ekki upprunalegu útliti hússins. Markmiðið var sem fyrr fyrst og fremst að tryggja áframhaldandi varðveislu hússins og forða því frá skemmdum.

Þó farið séð að sjá fyrir endann á framkvæmdunum við sumarhúsið er þeim ekki lokið. Næsta sumar verður hurð og gluggum komið í húsið og lokið við frágang þakkanta og málun. Þá þarf að huga að varðveislu innviða hússins og einnig að bátaskýlinu sem hýsir Gullmávinn, bát Kjarvals. 

Styrktaraðilar þessa áfanga verkefnisins voru Uppbyggingarsjóður Austurlands, Húsafriðunarsjóður, Múlaþing, Safnasjóður og Styrktarsjóður EBÍ. Áður hafa Landsvirkjun og Alcoa Fjarðaál lagt sín lóð á vogarskálarnar. 

 

Mynd: Úr Kjarvalshvammi sumarið 2021.
Ljósmyndari: Gunnar Feyr