Líða fer að jólum - desember í Safnahúsinu

Þegar aðventan gengur í garð er Safnahúsið klætt í jólabúninginn og söfnin bjóða til notalegra samverustunda fjarri jólaösinni.

Minjasafnið býður til jólastofu þar sem nostalgían og jólaandinn svífur yfir. Einnig verður hægt að læðast um sýningarsalinn í litlum jólaratleik en þar hafa 13 litlir jólasveinar og fylgifiskar þeirra falið sig. Þá verður að auki hægt að spreyta sig á spurningakeppni um jólin og jólahefðir. Ekki má heldur gleyma jóladagatali safnsins sem finna má á efnum. Frítt inn fyrir fullorðna í fylgd með börnum.

Á Bókasafninu svigna hillurnar undan nýjum bókum sem jólabókaflóðið hefur skolað upp á strendur safnsins. Einnig er búið að taka fram allar gömlu góðu jólabækurnar.

Á Héraðsskjalasafninu er búið að draga fram jólakort fyrri tíma sem mörg hver kalla fram notalegar minningar um þennan aldagamla sið.

Opnunartími í desember:
- Bókasafn Héraðsbúa: Alla virka daga 14:00-19:00.
- Minjasafn Austurlands: Alla virka daga 11:00-16:00. Aukaopnun á miðvikudögum fram að jólum, þá verður opið til 18:00.
- Safnahúsið verður lokað 23. og 24. desember.
- Opnunartíma safnanna milli hátíða má finna á Facebook síðum þeirra og á vefnum.

Minnum á persónubundnar sóttvarnir.

Verið hjartanlega velkomin í Safnahúsið í desember.