Við tölum ekki um geymslur, heldur varðveisluhúsnæði!
Safnaráð, FÍSOS og Íslandsdeild ICOM stóðu nú nýverið fyrir málþingi undir yfirskriftinni Við tölum ekki um geymslur, heldur varðveisluhúsnæði! Málþingið fór fram í Safnahúsinu við Hverfisgötu og þar var fjallað stöðu varðveislumála safna vítt og breytt um landið, þær áskoranir sem söfnin standa frammi fyrir varðveislumálum og eftirlit Safnaráðs með varðveislumálum viðurkenndra safna.Frummælendur komu úr ýmsum áttum flutti fjölbreytt erindi sem snéru að málaflokknum. Meðal þess sem var á dagskrá var sameiginlegt erindi Elsu Guðnýjar Björgvinsdóttir safnstjóra Minjasafns Austurlands, Elfu Hlínar Sigrúnar Pétursdóttur, safnstjóra Tækniminjasafns Austurlands og Steinunnar Maríu Sveinsdóttur safnstjóra Flugsafns Íslands. Í erindi sínum fjölluðu þær stöllur um hugmyndir um sameiginlegt varðveisluhúsnæði safna á Austurlandi. Slíkar hugmyndir hafa lengi verið uppi og árið 2017 gerði Steinunn könnun á viðhorfum safna- og sveitarstjórnarfólks í fjórðungnum á málinu og fjallaði hún um niðurstöður hennar. Hugmyndin fékk svo að nýju byr undir báða vængi á síðasta ári þegar Tækniminjasafn Austurlands stóð frammi fyrir að þurfa að hugsa varðveislumál sín upp á nýtt í kjölfar skriðufallanna á Seyðisfirði í lok árs 2020. Elfa Hlín sagði frá stöðunni á safninu og hverju sameiginleg varðveislumiðstöð myndi breyta fyrir safnið. Á síðasta ári tóku öll viðurkenndu söfnin á Austurlandi auk Héraðsskjalasafns Austfirðinga höndum saman um verkefni sem snýst um að gera forkönnun, greining og tillögur um sameiginlegt, fjölnota varðveisluhúsnæði fyrir söfn á Austurlandi og mögulega fleiri stofnanir. Verkefnið hlaut styrki úr Safnajóði og Uppbyggingarsjóði Austurlands. Elsa Guðný sagði frá verkefninu og tilurð þess.
Mynd: Varðveislusérfræðingar Listasafns Íslands að störfum.