Safngripir í þrívídd
Á dögunum bauðst safnafólki á Austurlandi að sækja námskeið í myndatöku og vinnslu á þrívíðum myndum af safngripum til að nýta í miðlun. Námskeiðið fór fram í Minjasafni Austurlands en var haldið að frumkvæði Gunnarsstofnunar á Skriðuklaustri. Leiðbeinandi var Catherine Cassidy frá St. Andrews háskólanum í Skotlandi en skólinn hefur átt í margvíslegu samstarfi við Gunnarsstofnun um árabil sem hefur leitt af sér fjölbreytt og áhugaverð miðlunarverkefni. Catherine leiddi þátttakendur í allan sannleikann um þá möguleika sem þessi tegund miðlunar býður upp á auk þess að kenna viðstöddum réttu handtökin við þrívíddarljósmyndun. Það er afar dýrmætt að fá slíkt tækifæri til að læra af sérfræðingum á þessu sviði og það verður spennandi að sjá hvernig þekkingin mun nýtast í miðlun á austfirskum menningararfi í framtíðinni.